Ríkislögreglustjóri hefur ekki fengið upplýsingar um meint innbrot í tölvu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, en innbrotið er sagt hafa átt sér stað þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra. Þetta kemur fram á fréttavefnum Vísi.is.
Sigmundur Davíð greindi frá því í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina að brotist hefði verið inn í tölvuna hans. Hann hefði enn fremur verið eltur til útlanda. Fjallaði hann um þetta í tengslum við átök við kröfuhafa föllnu bankanna.
Fram kom í máli Sigmundar Davíðs að öryggisfulltrúi í Stjórnarráðinu hefði staðfest innbrotið. Rekstrarfélag Stjórnarráðsins segir í svari við fyrirspurn frá fréttavefnum Kjarnanum að Sigmundur hafi óskað eftir því að tölva hans yrði skoðuð vegna gruns um að brotist hefði verið inn í hana en að engin ummerki hafi hins vegar fundist um slíkt innbrot.
Rekstrarfélagið segir beiðni um að skoða tölvuna hafa komið frá Sigmundi Davíð 1. apríl á þessu ári, tveimur dögum áður en Kastljósþáttur um svonefnd Panama-skjöl var sýndur, en nokkrum dögum síðar sagði hann af sér embætti forsætisráðherra.