Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að leyft verði að veiða rjúpur í tólf daga í haust. Þeir skiptast á fjórar helgar, þrjá daga hverja helgi, frá 28. október n.k. til 20. nóvember. Leyfileg heildarveiði er 40.000 rjúpur. Sölubann gildir áfram. Veiðimenn eru hvattir til að veiða ekki nema 5-6 fugla hver. Verndarsvæði rjúpna verður áfram á Suðvesturlandi. Ákvörðun ráðherra er í samræmi við ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) frá 6. september sl.
Umhverfisstofnun (UST) sendi ráðuneytinu tillögur um fyrirkomulag rjúpnaveiða 7. september sl. UST mælti m.a. með því að veiðifyrirkomulag rjúpu yrði ótímabundið. Varpstofn rjúpu færi ekki undir 90.000 fugla. Færi stofninn undir þau mörk yrðu veiðar ekki heimilaðar fyrr en metinn varpstofn mældist yfir 100.000 fuglum. Þá vildi UST að leyft yrði að veiða í 18 daga eða um sex þriggja daga helgar, þ.e. tvær síðustu helgarnar í október og fjórar í nóvember.
Dúa J. Landmark, formanni Skotveiðifélags Íslands (Skotvís), finnst að NÍ hafi seilst inn á verksvið Umhverfisstofnunar varðandi ráðleggingar um veiðistjórnun. „Okkur hefði þótt eðlilegt að ráðherra tæki mark á tillögum frá stofnun sem heyrir undir hennar ráðuneyti og fer með veiðistjórnunarhlutverkið,“ sagði Dúi. „Það virðist að ráðherrann líti svo á að það sé meira að marka tillögur sem koma frá Náttúrufræðistofnun en frá Umhverfisstofnun og vinnuhópi UST sem m.a. Skotvís og Fuglavernd sátu í. Við í Skotvís erum ekki sátt við þessi vinnubrögð og finnst að þau þarfnist endurskoðunar.“
UST skipaði vinnuhóp í mars 2016 til að leggja á ráðin um fyrirkomulag rjúpnaveiða í framtíðinni. Auk UST var NÍ, Skotvís og Fuglavernd boðið í hópinn sem mótaði tillögur um fyrirkomulag rjúpnaveiða. Dúi sagði að fjölgun veiðidaga úr 12 í 18 hefði ekki aukið veiðiálag á rjúpuna.