Stjórnvöld hafa tekið yfirlýsingu fyrrverandi forsætisráðherra um að brotist hafi verið inn í tölvu hans og honum veitt eftirför erlendis mátulega kæruleysislega, að mati Róberts Marshall, þingmanns Bjartrar framtíðar. Utanríkisráðherra segir að sjá þurfi til hvort þjóðaröryggisráð verði kallað saman.
Róbert spurði Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra út í fullyrðingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Tengdi Sigmundur Davíð þessar dularfullu uppákomur við glímu sína við kröfuhafa föllnu bankanna.
Vildi þingmaðurinn vita hvað hafi farið í gang hjá hinu opinbera í kjölfar yfirlýsinga Sigmundar Davíðs um að brotist hafi verið inn í tölvu hans og honum veitt eftirför þegar hann var staddur erlendis. Taldi Róbert að um þjóðaröryggismál væri að ræða og spurði hvort ekki væri ástæða til að taka orðum Sigmundar Davíðs alvarlega.
Frétt mbl.is: Svartur kafli, njósnir og brjálaðar aðgerðir
Lilja sagði að það væri forsætisráðherra að ákveða að kalla saman nýstofnað þjóðaröryggisráð. Ábendingar Róberts væru hins vegar góðar og ástæða væri til að skoðar þær frekar.
Róbert sagðist þá hafa það á tilfinningunni á stjórnvöld tækju yfirlýsingu Sigmundar Davíðs mátulega kæruleysislega. Sjálfur teldi hann það alvarlegt að hægt væri að brjótast inn í tölvu forsætisráðherra þjóðarinnar.
Utanríkisráðherra sagðist telja að farið yrði yfir málið. Sjá þurfi til um hvort forsætisráðherra kalli þjóðaröryggisráðið saman vegna þess.