Nefndin notuð í pólitískum tilgangi

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Verið er að nota fjár­laga­nefnd í póli­tísk­um til­gangi og það er í hæsta máta óeðli­legt að nefnd­in taki upp mál sem stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd hafði áður af­greitt þar sem for­mönn­um fjár­laga­nefnd­ar lík­ar ekki fyrri niðurstaða. Þetta seg­ir Odd­ný Harðardótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og 2. formaður fjár­laga­nefnd­ar, í sam­tali við mbl.is.

Í gær kynntu þau Vig­dís Hauks­dótt­ir og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, formaður og vara­formaður nefnd­ar­inn­ar, skýrslu þar sem fyrr­ver­andi fjár­málaráðherra er bor­inn þung­um sök­um og sagt að samn­ing­ar við kröfu­hafa bank­anna hafi orðið til þess að tug­millj­arða meðgjöf var af hálfu rík­is­ins með end­ur­reisn bank­anna árið 2010 og að ríkið hafi tekið mest alla áhættu í mál­inu án þess að fá nema þriðjung ágóðans.

Þegar búið að skoða málið

Odd­ný seg­ir að hjá Alþingi sé að störf­um þing­nefnd sem hafi það hlut­verk að fara ofan í svona mál og ásak­an­ir og hún nefn­ist stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd. Í fyrra hafi hún skoðað þess­ar sömu ásak­an­ir og gefið úr skýrslu sem Brynj­ar Ní­els­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, kynnti og þar með hafi mál­inu verið lokið af hálfu þings­ins. Niðurstaða skýrsl­unn­ar var að eng­ar skipu­lagðar blekk­ing­ar eða svik hefðu átt sér stað til hags­bóta fyr­ir er­lenda kröfu­hafa á kostnað rík­is­ins og ein­staka skuld­ara þegar nýju bank­arn­ir voru sett­ir á fót eft­ir.

„Mis­notk­un á einni mik­il­væg­ustu nefnd þings­ins.

„Það er í hæsta máta óeðli­legt að önn­ur nefnd taki málið upp af því að henni lík­ar ekki fyrri niðurstaða,“ seg­ir Odd­ný og bæt­ir við að þá setji hún stórt spurn­ing­ar­merki við það hvernig skýrsl­an sé unn­in. „Mér finnst þetta vera mis­notk­un á einni mik­il­væg­ustu nefnd þings­ins. Það er verið að nota nefnd­ina í póli­tísk­um til­gangi.“ Seg­ir Odd­ný ekk­ert fag­legt vera við skýrsl­una eða að þar sé bætt við upp­lýs­ing­um sem ekki hafi komið fyr­ir áður.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.
Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, vara­formaður fjár­laga­nefnd­ar og Vig­dís Hauks­dótt­ir, formaður fjár­laga­nefnd­ar. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Odd­ný átel­ur einnig hvernig staðið hafi verið að út­gáfu skýrsl­unn­ar. Þing­menn geti í raun gert það sem þeir vilji við sinn tíma, en að þarna sé skýrsla gef­in út í nafni nefnd­ar sem þó hafi ekki tekið skýrsl­una til umræðu. Þá sé hún ekki held­ur birt á vef Alþing­is sem op­in­bert skjal og eng­inn sé skráður fyr­ir henni. Einnig megi sjá á skýrsl­unni að hún hafi ekki verið les­in yfir með til­liti til ís­lensku og að það þýði að skýrsl­an komi ekki frá þing­inu, enda séu öll op­in­ber skjöl lús­les­in af starfs­mönn­um þess fyr­ir út­gáfu.

Póli­tísk­ar árás­ir og dylgj­ur

Seg­ist hún hafa mót­mælt þess­ari vinnu þegar hún fór af stað á sín­um tíma en svo í gær hafi þau fengið að vita af blaðamanna­fundi án þess að minni­hlut­inn hafi fengið hana í hend­ur eða til um­fjöll­un­ar.

Seg­ist Odd­ný ætla að fara fram á það á næsta fundi fjár­laga­nefnd­ar að þessi mál séu rædd. Seg­ist hún ekki skilja þessi vinnu­brögð og að þau kalli á skýr­ing­ar. „Ég skil ekki í þessu nema að þetta séu póli­tísk­ar árás­ir og dylgj­ur,“ seg­ir Odd­ný.

Frétt mbl.is: Tug­millj­arða meðgjöf með bönk­un­um

Frétt mbl.is: Bera Stein­grím þung­um sök­um

Frétt mbl.is: Langt seilst til að friða kröfu­hafa

Frétt mbl.is: Gef­ur ekki mikið fyr­ir skýrsl­una

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert