„Þetta er ekki skrípasamkoma“

Skýrslan sem þingmenn deila um.
Skýrslan sem þingmenn deila um. mbl.is/Eggert

Þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar gagn­rýndu harðlega nýja skýrslu sem Vig­dís Hauks­dótt­ir, formaður og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, vara­formaður fjár­laga­nefnd­ar, kynntu í gær um einka­væðingu bank­anna hinna síðari. Þá voru skýrslu­höf­und­ar sakaðir um að mis­nota nefnd­ina í póli­tísk­um til­gangi. „Þetta er ekki skrípa­sam­koma“ sagði þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Í skýrsl­unni er Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, fyrr­ver­andi fjár­málaráðherra, m.a. bor­inn þung­um sök­um, en hann er sakaður um að hafa án laga­heim­ild­ar sem fjár­málaráðherra tekið yfir verk­efni Fjár­mála­eft­ir­lits­ins við end­ur­reisn banka­kerf­is­ins og gengið til samn­inga við kröfu­hafa í stað þess að fylgja neyðarlög­un­um. Þá kom fram að ábyrgðin á einka­væðing­unni hafi fyrst og fremst verið hjá skatt­greiðend­um en ávinn­ing­ur­inn hafi farið til kröfu­haf­a.

Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir kynntu skýrsluna fyrir blaðamönnum …
Guðlaug­ur Þór Þórðar­son og Vig­dís Hauks­dótt­ir kynntu skýrsl­una fyr­ir blaðamönn­um í gær. mbl.is/​Eggert

Þing­menn ræddu málið í umræðu um störf þings­ins á Alþingi í dag.

Heima­vinna þing­manna

Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að blaðamanna­fund­ur sem formaður og vara­formaður fjár­laga­nefnd­ar boðuðu til í gær, sýni í hnot­skurn eina af ástæðum þess að stjórn­mál og umræðuhefð eigi í al­var­leg­um vanda. Hún benti á að skýrsl­an hefði ekki verið kynnt fjár­laga­nefnd með form­leg­um hætti né lagt fyr­ir nefnd­ina til um­fjöll­un­ar. Geri minni­hlut­inn al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við það. 

„Þetta birt­ist mér sem heima­vinna þing­manna og bygg­ir meira og minna á klipp­um úr öðrum skýrsl­um sem er raðað sam­an í eina súra sam­særis­kenn­ingu um að þáver­andi fjár­málaráðherra [Stein­grím­ur J. Sig­fús­son] gengi er­inda er­lendra kröfu­hafa,“ sagði Bjarkey og bætti við að Vig­dís og Guðlaug­ur væru að mis­nota nefnd­ina í póli­tísk­um til­gangi. 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður VG. mbl.is/​Eggert

Hið furðuleg­asta mál

Birgitta Jóns­dótt­ir, þingmaður Pírata, sagði að hún væri ringluð yfir vinnu­brögðum for­manns og vara­for­manns fjár­laga­nefnd­ar í mál­inu.

„Mér finnst þetta hið furðuleg­asta mál í alla staði,“ sagði hún og vísaði til þess að skýrsla Brynj­ars Ní­els­son­ar, þing­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, um sama mál, hefði sýnt fram á að ekk­ert vafa­samt hefði átt sér stað. Hún óskaði eft­ir því að fá að heyra álit annarra þing­manna í meiri­hluta fjár­laga­nefnd­ar, þ.e. um aðkomu þeirra að þess­ari skýrslu sem var kynnt í gær.

Birgitta sagði að það væri furðulegt að minni­hlut­inn hefði ekki verið upp­lýst­ur um inn­tak skýrsl­unn­ar áður en málið var kynnt fyr­ir fjöl­miðlum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jóns­dótt­ir, þingmaður Pírata. mbl.is/​Eggert

Skýrsl­an til umræðu á á fundi fjár­laga­nefnd­ar á morg­un

Har­ald­ur Bene­dikts­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sem á sæti í fjár­laga­nefnd Alþing­is, sagði að skýrsl­an hefði farið af stað í nefnd­inni 26. apríl sl. og þar af leiðandi verið á dag­skrá nefnd­ar­inn­ar áður. Har­ald­ur bætti við að hann væri í sjálfu sér ekki ósam­mála út­tekt Brynj­ars Ní­els­son­ar en í þeirri skýrslu hafi ekki öll­um spurn­ing­um verið svarað. Til dæm­is að, með hliðsjón af óvissu um verðmæti eign­anna, af hverju ekki hefði verið gert sam­komu­lag um skipt­ingu virðis­auka eins og gert hefði verið í samn­ing­um um Lands­bank­ann. Brynj­ar hefði því einnig haft uppi viðvör­un­ar­orð og spurn­ing­ar sem verið væri að reyna að fjalla um í skýrslu Vig­dís­ar og Guðlaugs. Hún byggði enn frem­ur á nýrri upp­lýs­ing­um. Skýrsl­an kæmi svo til umræðu í fjár­laga­nefnd á morg­un. 

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði áhuga­vert að þing­menn væru fyrst og fremst að ræða um form skýrsl­unn­ar en ekki efni henn­ar. Hann sagði að það væri rétt hjá Birgittu að nýja skýrsl­an vísaði í efni sem væri að finna í eldri skýrsl­um, út­tekt­um og svör­um. „Þetta er gert til þess að aðilar geti nú rakið sig áfram í gegn­um þetta. Ég myndi nú ætla það að þeir sem í orði kveðnu tala um mik­il­vægi þess að hafa allt uppi á borðum og gagn­sæi og slíkt, myndi fagna því að þess­ar upp­lýs­ing­ar séu sett­ar fram með þess­um hætti - en það er ekki.“

Menn læri af mis­tök­un­um

Guðlaug­ur ít­rekaði að niðurstaða skýrsl­unn­ar hefði verið sú að ábyrgðin á einka­væðing­unni hefði verið fyrst og fremst hjá skatt­greiðend­um en ávinn­ing­ur­inn hefði farið til kröfu­haf­anna. En þar sem nú­ver­andi rík­is­stjórn hefði haldið vel á mál­un­um og hags­mun­um skatt­greiðenda hefði þetta allt farið vel. „En við kom­umst ekki hjá því, virðuleg­ur for­seti, að skoða þessi mál í sam­hengi við önn­ur sam­bæri­leg mál á síðasta kjör­tíma­bili,“ sagði Guðlaug­ur og vísaði m.a. í Ices­a­ve-málið, mál Spari­sjóðs Kefla­vík­ur og Dróma. Menn gætu ekki kom­ist að ann­arri niður­stöðu en að ekki hefði verið haldið vel á mál­um af hálfu þeirra sem þá voru í for­ystu í lands­stjórn­inni. „Það er mik­il­vægt að læra af mis­tök­un­um,“ sagði Guðlaug­ur enn frem­ur.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Har­ald­ur Bene­dikts­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins. mbl.is/​Krist­inn

For­seti þings­ins verði að verja nefnd­ir gegn yf­ir­gangi 

Árni Páll Árna­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, gerði al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við skýrslu meiri­hluta fjár­laga­nefnd­ar sem þingmaður sem ætti sæti í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Alþing­is. Hann sagði að í skýrsl­unni, sem Víg­dís og Guðlaug­ur hefðu sett fram í eig­in nafni, væru sett­ar fram ávirðing­ar um mál sem hefði verið til um­fjöll­un­ar í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd þings­ins og efn­is­leg af­greiðsla hefði þar náðst um málið. „Við hverju er að bú­ast í framtíðinni? Meg­um við bú­ast við að meiri­hluti um­hverf­is­nefnd­ar komi með álit um neyðarlög­in og for­send­ur þeirra, eða eitt­hvað annað frá­leit­ara?“ spurði Árni Páll. 

„Það er mjög mik­il­vægt að þingið hafi eft­ir­lits- og rann­sókn­ar­hlut­verk gagn­vart fram­kvæmda­vald­inu. En hæst­virt­ur for­seti verður að verja rétt­ar nefnd­ir þings­ins fyr­ir yf­ir­gangi fólk sem geng­ur fram með þess­um hætti, eins og formaður og vara­formaður fjár­laga­nefnd­ar. Mis­nota aðstöðu sína, leggja málið aldrei fyr­ir nefnd­ina og hæst­virt­ur for­seti ber skylda til þess að verja eft­ir­lits­hlut­verk þings­ins gagn­vart fram­kvæmda­vald­inu með skýr­um hætti og stöðva svona fram­göngu.“

Staðlaus­ir staf­ir

Guðlaug­ur Þór tók þá til máls og sagði að Árni Páll færi fram með staðlausa stafi. Málið hefði verið skráð inn í nefnd­ina 26. apríl þar sem lagðir hefðu verið fram spurn­ingalist­ar og öll­um full­trú­um í nefnd­inni hefði verið boðið að leggja fram spurn­ing­ar í tengsl­um við málið. 

Guðlaug­ur Þór áréttaði að í nýju skýrsl­unni væri ekki verið að fjalla um málið með sama hætti og gert hefði verið í skýrslu Brynj­ars Ní­els­son­ar, því nýj­ar upp­lýs­ing­ar hefðu komið fram sem væri að finna í skýrslu meiri­hluta fjár­laga­nefnd­ar sem var kynnt í gær, en allt tengd­ist þetta hags­mun­um skatt­greiðenda.

Þá sagði hann að það væri mjög al­var­legt ef fjár­laga­nefnd mætti ekki taka upp mál þó að önn­ur nefnd væri búin að fjalla um það.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árna­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/​Styrm­ir Kári

Stór­hættu­legt ef of­stopa­menn geti gengið fram

Ein­ar K. Guðfinns­son, for­seti Alþing­is, sagði sam­kvæmt 26. gr. þing­skap­ar­laga væri kveðið á um mjög rúm­ar heim­ild­ir nefnda til að fjalla um mál sem heyrðu til mál­efna­sviðs þeirra, jafn­vel þó að þingið hefði ekki vísað þeim sér­stak­lega til viðkom­andi nefnd­ar. Al­menna regl­an væri sú að nefnd­ir væru mjög sjálf­stæðar í sín­um störf­um og þar af leiðandi ekki eðli­legt að for­seti þings­ins hefði af­skipti af þeim nema sér­stakt til­efni væri til. Það ætti ekki við í þessu máli.

Árni Páll kvaðst vera ósam­mála for­seta þings­ins. Til­efni væri til að grípa inn í þetta mál vegna þess að nefnd­in hefði ekki verið að af­greiða þetta mál. Árni Páll sagði að skýrsl­an, sem væri aðhlát­urs­efni í sam­fé­lag­inu því hún væri svo illa unn­in, hefði aldrei verið lögð fyr­ir nefnd­ina til umræðu. Minni­hlut­inn hefði ekki fengið tæki­færi til að taka efn­is­lega af­stöðu til skýrsl­unn­ar. 

„Það er stór­hættu­legt for­dæmi ef það er þannig að of­stopa­menn í for­ystu fyr­ir þing­nefnd­ir eiga að geta gengið fram og búið til rétt­ar­höld yfir póli­tísk­um and­stæðing­um sín­um án þess að þeir fái einu sinni tæki­færi til þess að koma fyr­ir nefnd og setja sín sjón­ar­mið á fram­færi. Ég ætla rétt að vona að Alþingi Íslend­inga breyt­ist ekki í svo­leiðis skrípa­sam­komu,“ sagði Árni Páll.

Málið er ekki komið til þings­ins fyrr en all­ir nefnd­ar­menn hafa fengið að tjá sig

Ein­ar K. Guðfinns­son bætti þá við að meiri­hluti nefnd­ar gæti tekið ákvörðun um að taka upp mál á grund­velli 26.gr. þing­skap­ar­laga. Það væri hins veg­ar rétt að þetta mál hefði ekki hlotið af­greiðslu út úr nefnd­inni fyrr en að hún hefði fengið tæki­færi til að taka af­stöðu til máls­ins. „Og sem slíkt er málið þar með ekki komið inn til þings­ins fyrr en þeirra af­greiðslu lýk­ur.“

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Val­gerður Bjarna­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/​Styrm­ir Kári

Val­gerður Bjarna­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði að skýrsl­an sem var kynnt í gær yrði ekki form­leg skýrsla fjár­laga­nefnd­ar fyrr en hún yrði af­greidd út úr nefnd­inni með meiri­hluta þing­manna. „Það er al­veg hreint óskilj­an­legt að reynd­ur þingmaður eins og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son leyfi sér að ganga fram með þess­um hætti. Og þakka for­seta fyr­ir að hafa verið svona skýr í orðum sín­um um það að þetta eru fá­heyrð og óheyrð vinnu­brögð þangað til núna. Svo segja menn: „Við ætl­um að gera þetta á morg­un.“ Það er búið að kynna þetta fyr­ir þjóðinni eins og þetta sé af­greitt mál frá þing­inu. Þetta er ekki skrípa­sam­koma,“ sagði Val­gerður.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert