„Viðbragðstími lögreglu þegar alvarleg atvik eiga sér stað er eins og dæmin hafa sannað með öllu óviðunandi og veldur því að hætta skapast og íbúar upplifa óöryggi. Við það verður ekki búið lengur,“ segir í bókun sveitarstjórnar Húnaþings vestra sem lögð var fram og samþykkt á fundi sveitarstjórnarinnar 8. september. Er þess krafist að mönnuð lögreglustöð verði staðsett á Hvammstanga og eru fyrri kröfur þess efnis þar með ítrekaðar, segir í bókuninni sem var samþykkt einróma og er svohljóðandi:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra tekur undir áhyggjur Byggðaráðs af óviðunandi stöðu og fámenni lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Jafnframt vill sveitarstjórn ítreka þær kröfur sem komið hafa fram allt frá því að lögregluumdæmi voru sameinuð árið 2014 að á Hvammstanga verði mönnuð lögreglustöð til að sinna því stóra svæði sem sveitarfélagið nær yfir. Viðbragðstími lögreglu þegar alvarleg atvik eiga sér stað er eins og dæmin hafa sannað með öllu óviðunandi og veldur því að hætta skapast og íbúar upplifa óöryggi. Við það verður ekki búið lengur. Til að hægt verði að manna lögreglustöð á Hvammstanga þarf að fjölga í lögregluliði umdæmisins alls og gerir sveitarstjórn Húnaþings vestra kröfu um að svo verði gert hið allra fyrsta.“
Frétt mbl.is: Komu á vettvang tveimur tímum síðar
Harðlega var gagnrýnt nýverið þegar það tók lögregluna tvo klukkutíma að koma á vettvang þegar bifreið lenti í höfninni á Hvammstanga. Karlmaður var í bifreiðinni og lét hann lífið. Lögreglumenn voru þá á skotvopnaæfingu í Skagafirði.