Villikettir hugsanlega felldir í leyfisleysi

Kisa sem þarf á heimili að halda.
Kisa sem þarf á heimili að halda. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Það var enginn köttur aflífaður, það er tómur misskilningur,“ segir Ragnar Guðlaugsson meindýraeyðir. Uppi hafa verið ásakanir á hendur Ragnari um að hann hafi aflífað ketti í Hafnarfirði án þess að hafa nokkurt leyfi til þess. Rataði málið á borð umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðarbæjar þar sem það er til skoðunar.

Félagið Villikettir hefur kært meint framferði Ragnars til Matvælastofnunar. Villikettir hafa það að markmiði að fækka villiköttum með mannúðlegum hætti; fanga þá, gelda og sleppa þeim.

Þegar Ragnar er spurður um hvað hann hafi gert við villikettina fullyrðir hann að hann hafi aðeins flutt þá til. Farið með þá frá einum stað til annars.

Hver bað þig um að gera það? „Það kemur engum við. Þú færð aldrei að vita það. Ég vil ekkert meira um þetta mál segja, vertu blessaður,“ sagði Ragnar.

Þegar rætt er við Arndísi Björgu Sigurgeirsdóttur sem er í stjórn félagsins Villikatta segir hún að félagsmenn hafi heyrt af því að meindýraeyðirinn hafi gortað sig af því að vera að drepa villiketti í Hafnarfirði.

Þarf að skila skýrslu

„Þetta spurðist til okkar og við létum Hafnarfjarðarbæ vita. Við teljum að hann hafi meira að segja aflífað ketti sem voru merktir frá okkur,“ segir Arndís Björg. „Okkur finnst slæmt í fyrsta lagi að hann skuli vera með leyfi sem meindýraeyðir þrátt fyrir að brjóta lög. Í öðru lagi skilar hann engri skýrslu um þessi dráp á villiköttum. Ef meindýraeyðir er fenginn á staðinn þarf að skila skýrslu. Villikettir eru nauðsynlegir í okkar vistkerfi, þeir halda rottum frá. Halda frá mávum, minkum og músum. Þeir gera engum mein.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert