Íslendingar opnir fyrir nýjungum

„Það hentar mér mjög vel að búa í Sviss og …
„Það hentar mér mjög vel að búa í Sviss og á Íslandi til skiptis. Aðallega af því mér finnst alltof heitt á sumrin í Sviss og það er mun þægilegri hiti á Íslandi yfir sumartímann,“ segir Sara Hochuli. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Svissneska listakonan og kökugerðarmeistarinn Sara Hochuli heillaðist af Íslandi á tónlistarhátíðinni Airwaves árið 2009. Nú er hún flutt til landsins og opnar brátt Kumiko tehús í Grandagarði þar sem litríkar kökur og frumlegur matseðill undir áhrifum japanskra manga-teiknimynda njóta sín. Hún á og rekur sambærilegt tehús í Zürich sem nefnist Miyuko.

„Ég fæ alltaf klikkaðar hugmyndir. Þær koma bara. Ég get ekkert annað gert en framkvæmt þær,“ segir Svisslendingurinn Sara Hochuli sem opnar Kumiko tehús við höfnina í Grandagarði 8. október nk. Á boðstólum verða litríkar kökur, grænt te frá Japan og kaffi. Sara er grafískur hönnuður og kökugerðarmeistari en hún er þekkt í heimalandi sínu, Bandaríkjunum og Þýskalandi fyrir litríkar kökur sem sækja innblástur m.a. í japanskar manga-teiknimyndir.

Heiti staðarins Kumiko vísar til persónu sem Sara skapaði fyrir nokkrum árum en stór mynd af henni er það fyrsta sem blasir við gestum þegar gengið er inn á staðinn. Kumiko er annað tehúsið sem Sara opnar en fyrir tæpum sex árum opnaði hún tehúsið Miyuko í Zürich í Sviss sem hefur vægast sagt slegið í gegn. Tehúsin eru eins konar systur, lík en samt ekki eins.

Ætluðu fyrst að opna á Íslandi

Sara kom í fyrsta skipti til landsins árið 2009 með kærasta sínum Dominik á tónlistarhátíðina Airwaves og féll fyrir landinu.

„Þegar við fengum þessa hugmynd að opna tehús vildum við gera það hér. Við sögðum að það yrði miklu svalara en í Zürich. Þegar við skoðuðum málið betur komumst við að því að við þyrftum að þekkja fleira fólk og einnig setti það strik í reikninginn að hér var ekki framleitt nógu gott súkkulaði sem við gátum notað,“ segir Sara, og Zürich varð því fyrir valinu fyrst um sinn. Þegar Sara komst í kynni við íslenska súkkulaðifyrirtækið Omnomm fyrir nokkrum árum breyttist þetta og nú er hún í samstarfi við það. Sara leggur mikið upp úr því að hráefnið sem hún vinnur með sé gott.

„Kökurnar verða að bragðast vel, að minnsta kosti jafn vel og þær líta úr fyrir að vera,“ segir hún. Kökunar sem Sara skapar eru engar venjulegar kökur heldur eru þær listaverk.

Áhugi á bakstri og kökugerð er ekki nýtilkominn hjá Söru en hún hefur bakað frá því hún man eftir sér. Fyrir nokkrum árum fór hún í nám í kökugerð í Þýskalandi. Hún segist hafa lært mikið þar og ekki síst hefur hún lært af reynslunni.

„Ég er oft spurð, af því ég er grafískur hönnuður, af hverju ég hafi snúið mér að kökugerð. Ég vil frekar segja að ég bý til grafíska hönnun í kökugerðinni,“ segir hún og bendir á það sé hægt að skapa nánast allt úr ætum efnivið eins og t.d. sykri og súkkulaði.

Í þessu samhengi nefnir hún einnig pappír sem er búinn til úr hrísgrjónum og hægt er að prenta á. „Þetta hefði ekki verið hægt fyrir tíu árum. Efniviðurinn er endalaus og þar með eru möguleikarnir til að skapa endalausir. Ef maður er skapandi þá skiptir ekki máli hver efniviðurinn er. Auðvitað lærir maður tæknina og aðferðina með sérhvert efni en svo lengi sem maður hefur hugmyndir og ímyndunarafl þá er þetta spurning um æfingu,“ segir hún.

Fjölskyldan hjálpar til

Frá því um miðjan júnímánuð hafa Sara og kærastinn hennar, Dominik, ásamt fjölskyldu og vinum unnið hörðum höndum að því að innrétta staðinn á Grandagarði. „Við höfum gert mikið sjálf því við höfum ekki alltaf haft efni á því að vera með iðnaðarmenn. Við erum líka mjög heppin og höfum fengið mikla aðstoð frá fjölskyldunni. Dagarnir hafa verið langir og oft erfiðir en þetta hefur verið algjört ævintýri,“ segir hún og tekur fram að faðir hennar sé trésmiður og hafi reynst þeim betri en enginn. Húsgögnin í tehúsinu eru að stórum hluta frá Póllandi en Dominik er þaðan og hefur fjölskylda hans aðstoðað þau við að flytja þau til landsins.

„Mér finnst líka gaman að gera þetta líka sjálf því maður lærir svo mikið á því,“ segir Sara sem er greinilega margt til lista lagt.

Tehúsin systur

Tehúsin tvö í Reykjavík og í Zürich eru ólík þrátt fyrir að þemað og matseðillinn sé svipað. „Við ætlum að vera með kökur sem eru frábrugðnar því sem við höfum verið með. Þær verða líka litríkar en við ætlum líka að skapa eitthvað nýtt. Ég ákvað strax að hafa tehúsin ekki eins. Það er svo leiðinlegt og hérna passar Miyuko ekki því þetta er allt annað umhverfi. Ég lít á tehúsin frekar eins og systur. Mér fannst Kumiko passa beint hér inn því gæludýrið hennar er kolkrabbi sem er fullkomið fyrir þennan stað,“ segir hún.

Japanskar manga-teikningar höfðuðu fljótlega til Söru þegar hún hóf nám í listaháskólanum en það voru einkum bjartir litir og grafík með svörtum útlínum sem heillaði. Sjálf skartar Sara hári í öllum regnbogans litum eins og persóna úr manga-teiknimynd.

Kökudiskurinn tómur

Sara segist búa vel að þeirri reynslu sem fylgir því að setja á laggirnar tehús í Zürich og reka það. Móttökurnar við tehúsinu fóru fram úr þeirra björtustu vonum. Fjölmiðlar veittu þeim mikla athygli jafnt, prent- og ljósavakamiðlar þegar tehúsið opnaði. Fljótlega eftir opnun var strax mikið að gera.

„Við bjuggumst aldrei við því að það yrði svona mikið að gera. Vissulega var þetta ánægjulegt en þetta var líka svakalega mikil vinna. Kökudiskurinn var alltaf tómur í lok dags. Við verðum betur undirbúin hérna,“ segir hún og brosir. Hún tekur fram að það sem vanti upp á núna sé helst kökugerðarmeistari til starfa á tehúsinu.

Sara er vongóð um góðar móttökur Íslendinga og líka erlendra ferðamanna sem eru áberandi á hafnarsvæðinu. „Ef ég ætti að bera saman Þjóðverja eða Svisslendinga við Íslendinga held ég að Íslendingar séu mjög opnir fyrir nýjungum og mér virðist þeir alltaf tilbúnir fyrir nýtt ævintýri.“

Of heitt á sumrin í Sviss

Sara og Dominik hafa komið sér vel fyrir á Íslandi og líkar vel. Þau búa þó áfram í báðum löndum. „Það hentar mér mjög vel að búa í Sviss og á Íslandi til skiptis. Aðallega af því mér finnst alltof heitt á sumrin í Sviss og það er mun þægilegri hiti á Íslandi yfir sumartímann,“ segir hún og hlær sínum smitandi hlátri. Hún bætir við að það henti sér vel að ferðast á milli staða því það veiti henni innblástur.

Sara Hochuli á milli systranna Kumiko og Miyuko.
Sara Hochuli á milli systranna Kumiko og Miyuko.
Ævintýralega litrík listaverk.
Ævintýralega litrík listaverk.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert