Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi það að búvörulögin skyldu hafa verið samþykkt á Alþingi í gær með 19 atkvæðum.
Frétt mbl.is: Búvörulögin samþykkt á Alþingi
„Innan við þriðjungur þingmanna batt ráðstöfun gríðarhárra fjármuna með 19 atkvæðum. Þetta hlýtur að kalla á það að þingsköp verði endurskoðuð og tryggt að það sé ekki hægt að ráðstafa öðrum eins fjármunum með minnihluta þeirra sem eiga sæti á Alþingi Íslendinga,“ sagði Ólína á Alþingi í dag.
„Mér finnst hafa orðið lýðræðisbrestur með þessari afgreiðslu.“
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, tók undir með Ólínu. „Það er eitthvað að þegar maður horfir hér á atkvæðatöfluna,“ sagði hann og bætti við: „Ég held að við hljótum með einhverjum hætti að þurfa að endurskoða starfshætti í þinginu. Þetta er ekkert annað en samningur um gamla Ísland, um óbreytt ástand.“