Um 70 manns úr sjóbjörgunarhópum Slysavarnafélagsins Landsbjargar víðs vegar af landinu eru nú við umfangsmiklar æfingar í Norðfjarðarflóa. Alls taka 12 hópar þátt í æfingunni á þremur björgunarskipum, sex harðbotnabátum og þremur slöngubátum.
Fimmtíu björgunarsveitarmenn taka þátt í æfingunni en 20 manns sjá um skipulag og framkvæmd hennar, samkvæmt tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.
Þátttakendur í æfingunni glíma við margþætt verkefni í dag, æfa landtöku við misjöfn skilyrði, leit með hitamyndavélum og fleira.
Uppsjávarveiðiskipið Bjarni Ólafsson AK 70, og áhöfn þess, tekur þátt í æfingunni og þar fékk björgunarsveitarfólk tækifæri til þess að æfa flutning slasaðra úr vélarrúmi skipsins upp á dekk og þaðan í björgunarskip og báta Landsbjargar.
Flugvél Landhelgisgæslunnar tekur einnig þátt í æfingunni, sem lýkur í kvöld. Áhöfn vélarinnar mun taka þátt í leitaræfingum auk þess sem margvísleg samhæfing Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita Landsbjargar verður æfð. Undirbúningur æfingarinnar var í höndum heimamanna.