Von er á átta manna sýrlenskri flóttamannafjölskyldu til landsins á næstu dögum, sem mun setjast að í Hafnarfirði. Að sögn Árdísar Ármannsdóttur, samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar, stóð til að fjölskyldan kæmi með hópnum sem kom til landsins í apríl, en för hennar var frestað.
„Yngsti fjölskyldumeðlimurinn fæddist í lok síðasta árs og konan treysti sér ekki í langferð með svo ungt barn,“ segir hún.
Von á 8 manna fjölskyldu í ágúst
Fjölskyldan er að koma úr flóttamannabúðum í Líbanon og samanstendur af hjónum með sex börn – fjórar stelpur og tvo stráka – sem eru frá því að vera á fyrsta aldursári og upp í það fjórtánda.
Hafnarfjarðarbær auglýsti nú í sumar eftir að taka húsnæði á leigu fyrir fjölskylduna og er hún nú komin með íbúð í Hafnarfirði, sem bíður þeirra við komuna til landsins.
Ellefu sýrlenskir flóttamenn, eða þrjár fjölskyldur, hafa verið búsettir í Hafnarfirði frá því í apríl og segir Árdís þeim hafa gengið vel að aðlagast samfélaginu frá komu sinni til landsins.