„Ég geri aldrei leiðinlegar myndir“

Jodorowsky hefur verið of veikburða il að ferðast undanfarið og …
Jodorowsky hefur verið of veikburða il að ferðast undanfarið og sér sér ekki fært að mæta á RIFF. Hann segist vera mjög glaður að Íslendingar geti horft á myndirnar hans. Ljósmynd/ Pascale Montandon

Alejandro Jodorowsky er goðsagnakenndur, síleskur leikstjóri og nýjasta kvikmynd hans, Endless Poetry, verður sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, sem hefst í lok mánaðarins. Jodorowsky sem er orðinn 87 ára gamall segir að eini tilgangur sinn með því að gera kvikmyndir sé að búa til list og tilgangur listarinnar sé að veita okkur innsýn í okkar eigið sjálf og fegurðina í kringum okkur.

Síleski leikstjórinn Alejandro Jodorowsky kláraði kvikmyndina Endless Poetry með því að hefja söfnun í gegnum hópfjármögnun á Indie Gogo. Tökur á kvikmyndinni, sem er önnur í seríu sjálfsævisögu, hans drógu úr honum þrek og hann sér sér ekki fært að koma til Íslands í þetta sinn sem heiðurgestur RIFF. Í hans stað kemur til landsins sonur hans, Brontis Jodorowsky, sem lék meðal annars í kvikmynd föður síns, El Topo, frá 1970 og mun svara spurningum áhorfenda og halda masterclass í tengslum við sýningar RIFF á Endless Poetry og Dance of Reality, sem er fyrsta myndin í sjálfsævisöguseríunni.

Kvikmyndin The Holy Mountain frá 1973 er án efa frægasta mynd Jodorowskys. Hún er mjög súrrealísk könnun á dulspeki hins vestræna heims og alkemískum fræðum og myndi frekar teljast listaverk en bíómynd.

Myndin var fjármögnuð af John Lennon og Yoko Ono á sínum tíma en Lennon hreifst mikið af myndinni El Topo sem Jodorowsky hafði gert. Framleiðandi hennar var Allen Klein sem var þekktur sem umboðsmaður The Rolling Stones og Bítlanna á seinni árum. Myndin sjálf fór hinsvegar ekki í dreifingu fyrr en í byrjun þessarar aldar og þykir meðal annars hafa haft mikil áhrif á einn þekktasta listamanns samtímans, Matthew Barney.

Kvikmyndin The Holy Mountain, eða Helga Fell, frá 1973 er …
Kvikmyndin The Holy Mountain, eða Helga Fell, frá 1973 er án efa frægasta mynd Jodorowskys en hann lék einnig aðalhlutverk í myndinni. Skjáskot

Jodorowsky er auk þess heimspekingur, leikari, galdramaður, Tarot-sérfræðingur, hann hefur einnig skrifað fjölmargar bækur, leikrit og teiknimyndasögur og það mætti lýsa honum sem einskonar spámanni samtímans. Jodorowsky komst einnig langleiðina að gerð kvikmyndarinnar Dune sem síðar var gerð af David Lynch. Úr því ferli var gerð heimildarmyndin Jodorowsky‘s Dune, heimild um bestu vísindaskáldsögumynd sem aldrei leit dagsins ljós.

Jodorowsky fæddist í Chile árið 1929 en foreldrar hans voru innflytjendur, gyðingar, frá Úkraínu. Hann hefur hinsvegar verið búsettur í París frá 24 ára aldri og það er til Parísar sem ég hringi á sólríkum eftirmiðdegi frá Reykjavík.

Kona kemur í símann og talar frönsku. Hún kallar: „Alejandro, c‘est le journaliste Islandais,“ og réttir honum símann. Umferðarniður og væl í lögreglubílum heyrist í fjarska. Ég titra af kvíða en hann er strax afskaplega vingjarnlegur og talar með sterkum spænskum hreim. Hann biður mig að tala hægar og skýrar þar sem enska hans sé ekki mjög góð.

Hr. Jodorowsky, kvikmyndin The Holy Mountain var sýnd í Reykjavík síðastliðinn vetur og það var slegist um miðana. Ég man eftir ungum manni sem hélt á miðanum sínum og starði á hann og sagði í sífellu: „Ég trúi þessu ekki, ég trúi þessu ekki.“ Hvers vegna heldur þú að þessi mynd hafi ennþá svona mikil áhrif á fólk í dag?

„Ég gerði þessa kvikmynd til að búa til list. Til að búa til eitthvað hreinskilið. Eitthvað sem skilur eitthvað eftir sig. Kvikmyndir sem eru gerðar í gróðatilgangi hafa stuttan líftíma, eftir svona tvo mánuði ertu búinn að gleyma um hvað myndin fjallaði. En þegar þú horfir á list, þá er listamaðurinn alltaf til staðar í henni, síbreytilegur. Verkið verður lifandi, eins og mannvera, þegar það er hreinskilið. Ég held að ungt fólk sé oft að leita að kvikmyndum sem gefa því eitthvað, eitthvað sem er ekki bara afþreying, heldur eitthvað skemmtilegt, sem vekur það. Ég geri aldrei leiðinlegar myndir. Ég geri sterkar, myndrænar myndir, list. Ég er ekki að búa til eitthvað til að græða á því, hvort sem það eru peningar, frægð eða aðdáun. Ég þurfti að bíða í þrjátíu ár eftir því að sýna Holy Mountain. Enginn vildi sýna þessa mynd og allir í kvikmyndaiðnaðinum hötuðu þessa mynd af því að hún aðlagaðist honum ekki. En unga fólkið sér þetta og skilur þetta.“

Með þessari mynd langar mig að sýna áhorfandanum tilfinningar svo …
Með þessari mynd langar mig að sýna áhorfandanum tilfinningar svo að hann geti líka fundið tilfinningar inni í sjálfum sér, segir Jodorowsky. Stilla/ Endless Poetry

Býr ekki til kvikmyndir til að græða á þeim

Þú þurftir að hópfjármagna Endless Poetry. Hvernig gekk það, og er eitthvert vit í því að búa til svona kvikmyndir í dag?

„Ég segi nú að ég sé að gera þetta vegna þess að ég trúi því að líf mitt sé í listinni. Ég er listamaður, ég er ekki viðskiptamaður. Og þá er mér sama hvort ég græði peninga eða ekki, það eina sem skiptir mig máli er að geta búið til myndir og að finna peninga til þess að gera það. List er ekki viðskipti. Hópfjármögnunin gekk mjög vel. Ég var samt búinn að spara, ég hafði ekki gert kvikmyndir í tuttugu ár þar til ég gerði Dance of Reality en þá missti ég allt.“ Hann skellihlær. Og þú hlærð? „Já! Ég er að búa til kvikmyndir til að tapa peningum, ekki til að græða peninga.“ Og hann hlær ennþá meira. „Ég átti örlítinn pening til að byrja á næstu mynd. En ég hef ungan aðstoðarmann, Xavier Guerrero, sem sagði við mig að við gætum byrjað á henni, en aldrei klárað hana. Þá sagði ég honum að það væri fullt af bókum til í heiminum sem hefðu aldrei verið kláraðar, en þær hefðu samt notið mikilla vinsælda. Þannig að við byrjuðum, en svo á miðju ferlinu týndi ég tökuvélinni minni. Þá stakk hann upp á hópfjármögnun og það gekk mjög vel, við fengum í kringum eina milljón dollara og ég keypti nýja tökuvél. Ég kláraði myndina og varð að heilögum betlara!“

Hvers vegna ákvaðstu að gera sjálfsævisögulegar kvikmyndir?

„Þegar ég var að gera fyrstu myndirnar mínar, The Holy Mountain, El Topo og Santa Sangre, þá var ég ungur og þekkti ekki þjáningar lífsins. Þegar maður eldist þá missir maður hluti. Maður missir fjölskyldu og vini þegar þau deyja, maður missir líkama sinn, og þá uppgötvar maður sálina í sjálfum sér, og það sem býr í hjartanu. Þá færir maður fókusinn frá höfðinu til hjartans og vill tala um tilfinningarnar sem bærast í sálu manns og í hjartanu. Og hvaða tilfinningar talar maður um? Nú, sínar eigin. Og þá fer ég að segja söguna um líf mitt og hvernig það var, vegna þess að sérhvert líf er eins og skáldsaga. Hver einasta manneskja, meira að segja leiðinlegasta manneskja sem þú þekkir, hefur eitthvað að segja. Þess vegna gerði ég þetta og er að gera.“

Ást er hinn raunverulegi sannleikur

En titillinn, ertu að gefa í skyn að ljóðlistin sé óaðskiljanlegur hluti af þinni heimssýn?

„Já, sjáðu til, þegar við tölum þá getum við ekki notað réttu orðin og fundið sannleikann. Vegna þess að tungumálið er ekki sannleikurinn. Orð eru ekki sannleikur, þau eru aðgerð. Það eina sem mannveran getur fundið fyrir er fegurð. Það er ekki hægt að finna sannleikann, en það er hægt að finna fegurðina. Og þess vegna er ljóðlistin mjög mikilvæg. Vegna þess að í gegnum hana nálgumst við sannleikann. Og hver er sannleikurinn, jú, að ég elska. Ég elska allt. Það er hinn raunverulegi sannleikur. Mannleg ást, kosmísk ást, heilög ást. Og það er skilgreiningin á list. Svona byrjaði ég að gera þessar kvikmyndir í seríunni og ég ætla að gera eina enn og loka hringnum. Sú þriðja mun heita Essential Work og á sér stað í París og í Mexíkó.“

En ég hélt að þú ætlaðir að gera fimm? „Nei! Ég hætti við. Vegna þess að ég er að tapa svo miklum peningum,“ segir hann og skellihlær. „Sjáðu til, ég byrjaði á einhverju og get ekki klárað það af því ég get ekki betlað peninga frá öðru fólki alla ævi. Ég ætla hinsvegar að gera fjórðu myndina á eftir henni en það er teiknimynd, sem er framhald á El Topo, sonur El Topo. Það er ævintýri sem fjallar ekki um mig, það er kvikmynd sem hefur marga fleti og einn þeirra er flötur fyrir ungt fólk og kjánalegt fólk. Ég ætla að gera mynd sem meira að segja kjánalegt fólk mun elska. Og það er miklu auðveldara að afla peninga fyrir teiknimynd.“

Þessar nýjustu myndir þínar virðast hafa þann tilgang að lækna sárin og mögulega sættast við föður þinn.

„Já! Tilgangur listarinnar er að lækna sársauka og finna gildi okkar. Við erum að leita og að finna. Þegar maður horfir á stórkostlegt málverk þá snertir það við einhverju innan í okkur sjálfum, ekki satt? Við uppgötvum eitthvað nýtt. Með þessari mynd langar mig að sýna áhorfendum tilfinningar svo að þeir geti líka fundið tilfinningar innan í sjálfum sér.“

Les Tarot-spilin eins og tungumál

Lækning, eða heilun, hefur orðið að stórum hluta af lífi Jodorowskys í kjölfar þess að sonur hans, Teo, dó árið 1995. Jodorowsky átti einnig ofbeldishneigðan föður og kaldlynda móður sem eru þættir í ævi hans sem hann hefur verið lengi að vinna úr. Hann hefur þróað ákveðna heilunaraðferð sem nefnist Psycho Magic, einskonar sálfræðigaldur sem hann segir hjálpa mörgum við að vinna úr sálrænum og líkamlegum kvillum. Getur þú útskýrt fyrir okkur þá heilunaraðferð sem þú hefur þróað og kallar Psycho Magic?

„Það er erfitt að skilja þetta ferli af því að það er svo skrýtið. Ég hef alltaf heillast af sálgreiningu að hluta til og af göldrum að hluta til. Þessum fornu göldrum, þar sem fólk er læknað með furðulegum hlutum eins og snákum eða köngulóm. Ég er með töluverðan leikhúsbakgrunn, ég tók þátt í um eitt hundrað spunaleiksýningum í Mexíkó. Það var um þetta leyti sem ég byrjaði að skapa Psycho Magic. Þetta snýst um að búa til myndlíkingar og skilja þær. Til dæmis, í sálgreiningarleikhúsinu myndir þú segja: þessi stóll, hann er móðir þín. Og svo byrjar þú að tala við stólinn og þú endar með að rífast við stólinn og hata hann. Þú getur líka notað ljósmyndir eða talað við gröf. Ef þú átt eitthvað óuppgert við manneskju sem er dáin, getur það haft heilandi áhrif að tala við gröfina, þar sem líkið liggur. Þetta virkar eins með lyfleysur, meðal sem er ekki meðal, þetta snýst allt um að breyta hvernig við hugsum. Þá byrjar maður að hugsa um heiminn á nýjan hátt, maður býr til ljóðlistina og maður getur breytt hlutunum. Það er Psycho Magic. Ég hef skrifað nokkrar bækur um þetta, lesið þær endilega.“

Ertu enn að lesa úr Tarot spilum fyrir gesti og gangandi á kaffihúsi í París?

„Ég hef verið að nota Tarot-spil í fimmtíu ár, en þú veist, ég les ekki framtíðina. Ég les spilin eins og tungumál. Þetta er myndrænt tungumál. Tarotið talar í gegnum fígúrur, liti, tölur. Þegar manneskja velur spil þá er eitthvað þar og maður getur lesið það. Ég kann að lesa úr Tarotinu, ég þýði það, alveg eins og þegar maður þýðir tungumál í höfðinu á sér. Ég sé myndirnar og svo þýði ég þær fyrir fólk, til að hjálpa því að skilja hvaða tækifæri spilin sýna því. Áður en ég gerði þessa kvikmynd þá las ég í Tarot á hverjum degi, alltaf á sama kaffihúsinu í París og þetta varð frægt, þannig að það mættu á mili 200-300 manns á hverjum degi. Það var auðvitað ómögulegt og þá byrjaði ég að draga nöfn fólks úr hatti, svona eins og í Lottó, og 20-30 manns komust að á degi hverjum. Ég hef aldrei tekið neitt fyrir þetta, en þegar ég gerði myndina þá bað ég fólk að styrkja hana þegar ég las úr spilunum fyrir það. Hlustaðu nú, ég ætla að segja þér sögu. Einu sinni var risastór vél sem bilaði. Og það var kallað á allskyns sérfræðinga en enginn fannst. Þá kom gamall maður með hamar og sló létt á vélina, einu sinni og hljóðið var svona „tak“. Og þá sagði fólkið: og hvað kostar þessi viðgerð? Þá sagði gamli maðurinn, eina milljón og einn dollara. Allir supu hveljur og sögðu, ha, fyrir eitt lítið „tak“? Og þá svaraði gamli maðurinn, „Nei, þetta „tak“ kostar einn dollara, en milljónin er fyrir öll árin sem ég eyddi í að læra að gera það.“ Sjáðu til, Tarotið er eins, það er mjög erfitt að læra að lesa það og það tók mig mörg ár.“

Alejandro Jodorowsky lék sjálfur í kvikmyndinni El Topo (1970) ásamt …
Alejandro Jodorowsky lék sjálfur í kvikmyndinni El Topo (1970) ásamt syni sínum, Brontis Jodorowsky. Skjáskot

Að sættast við dauðann

Jodorowsky segist vera miður sín að komast ekki til Íslands í þetta sinn. „Ég er gríðarlega forvitinn um Ísland. En þú skilur, ég var svo gríðarlega þreyttur eftir þessa síðustu mynd. Ég tek mikið af lyfjum og ég er með ofnæmi og er gigtveikur og hef ekki verið nógu sterkur fyrir. En mér líður betur. Ég kem bara í annað sinn. Mig langar að kynnast Íslandi, þetta er mjög dularfullt land fyrir mér og ég hef aldrei komið þangað. En mikið er ég glaður að þið getið horft á myndirnar mínar.“ Hann segist þó vera nokkuð hress. „Ég er áttatíu og sjö ára og hálfs. Eiginlega allir á mínum aldri eru dauðir. Ég er rosalega gamall,“ segir hann og hlær dátt. „En margir halda að ég sé sextugur, en nei, ég er er næstum níræður. Ég reyki ekki, ég drekk aldrei. Allir vinir mínir dóu. Þeir urðu bara sextugir. Það er vegna þess að þeir reyktu of mikið og drukku of mikið. Og tóku of mikið af eiturlyfjum.“

En þú, hvað vilt þú lifa lengi?

„Ég verð að lifa þangað til að ég er orðinn 120 ára af því að ég á eftir að gera svo margt og búa til svo margar kvikmyndir. Ég á líka yndislega konu og mig langar ekki að deyja á undan henni.“

Nú ert þú svo djúpt andlega þenkjandi, hvernig tilfinning er það að færast nær dauðanum? Ertu að undirbúa sálu þína fyrir dauðann?

„Ég þarf ekki að undirbúa neitt. Lífið snýst um það að læra að deyja. Og sætta sig við það að maður mun deyja. Ef þú sættir þig ekki við það þá fyllist þú örvæntingu. Sjáðu til, í kvikmyndinni Endless Poetry hittir mitt unga sjálf mitt gamla sjálf og ungi ég spyr gamla mig hvernig það sé að verða gamall. Að verða gamall þýðir að maður tapar fólki, maður tapar frægð, maður tapar kynlífi en maður verður maður sjálfur. Og svo deyr maður og verður að eintómu tæru ljósi. Ef ég fyllist örvæntingu þá mun ég ekki skilja það. Á hverju kvöldi þegar ég fer að sofa veit ég ekkert af mér þangað til ég vakna. Maður fer eitthvað og veit ekkert hvert maður er að fara, en það er ekkert mál. Dauðinn er alveg eins, þetta er ekkert mál. Ég mun ekki finna fyrir neinu. Ef ég finn fyrir einhverju, þá vakna ég. Að fyllast örvæntingu er vandamál sem tengist egóinu. Ég vil enga örvæntingu. Ekkert er okkar eigið. Líkami minn er ekki minn. Alheimurinn lánar mér líkama. Þegar maður hefur hafið andlega vakningu þá tengist maður. Maður er ekki lengur einn. Hið innra tengist því ytra og tímanum og þú ert bara dropi í hafinu. Og svo verður þú að hafinu. Og það er ekki mikilvægt að vera þetta haf. Þegar þú uppgötvar þetta þá hættir þú að fyllast örvæntingu. En þú munt skilja þetta þegar þú verður gömul. Það er ekki hægt að finna það sem er ógerlegt að finna. Ef það er eitthvað, þá muntu öðlast það, ef það er ekkert, þá muntu ekki vita það.

Ég er núna að nálgast dauðann og það eina sem ég hugsa um er að skemmta mér við það að klára það sem ég þarf að klára og það sem ég klára ekki það verður bara óklárað,“ segir hann og skellihlær. „Á hverjum degi hugsa ég: en stórkostlegt! Einn dagur í viðbót! Frábært.“

Boris Jodorowsky, sonur Alejandro Jodorowsky verður með Masterclass laugardaginn 1.október í Bíó Paradís kl. 15.30 - 17.00 og situr fyrir svörum 30. september. Nánari upplýsingar og sýningartíma á kvikmyndunum Dance of Reality og Endless Poetry má finna á www.riff.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka