Bændur sem geta selt kjöt sjálfir geta haft talsvert upp úr því og Landssamband sauðfjárbænda hvetur menn til að vinna með þennan möguleika og jafnvel tengja hann við staðbundna ferðaþjónustu sem margir sauðfjárbændur eru að sinna í dag. Þetta segir Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri samtakanna, í samtali við mbl.is.
Fyrr í dag sagði mbl.is frá því að bændur í Húnavatnssýslu hefðu byrjað að selja lambaskrokka á Facebook og gerðu þau ráð fyrir mun hærra verði en þegar skrokkurinn er seldur til almennrar afurðastöðvar. Gerðu þau ráð fyrir um 50-90% hærra veri til sín en það sem afurðastöðvarnar bjóða.
Frétt mbl.is: Selja sjálf og fá 50-90% hærra verð
Miðað við tölur frá Landssambandi sauðfjárbænda má gera ráð fyrir að útsöluverð á meðalskrokki sé um 21 þúsund krónur í næstu búð. Af því fari innan við 9 þúsund krónur til bænda. Segir Svavar að með heimtöku bænda og sölu beint til neytenda geti bæði neytendur og bændur fengið betra verð. Það sé orðin ríkari krafa neytenda að vita hvaðan kjöt kemur og með þessu móti er það alveg tryggt. Á móti kemur að eitthvað óhagræði geti falist í að kaupa heila eða hálfa skrokka og frysta þá.
Segir Svavar að m.v. 1.200 krónu kílóverð geti báðir aðilar hagnast á þessu, en þá sé meðalskrokkur á um 19 þúsund krónur. Þannig geti bændur fengið allt að tvöfalt verð fyrir afurðina á meðan neytendur fái vöru beint frá býli og til viðbótar ódýrari en ef keyptir væru pakkar beint úr matvöruverslun.
Svavar tekur þó fram að líklegast muni stærstur hluti framleiðslunnar áfram fara í gegnum stóru afurðastöðvarnar, en að Landssamtökin hvetji bændur til að skoða þennan möguleika.
Í því samhengi hafa samtökin fengið arkitekt til að gera teikningu af heimavinnslu fyrir þau býli sem vilji koma upp lítilli útgáfu af sláturhúsi heima fyrir. Segir hann að nokkrir bændur séu með slíka aðstöðu og að fyrir fram tilbúnar teikningar sem uppfylli lög og reglugerðir geti auðveldað bændum að fara þessa leið.
Aðspurður hvort hann telji sauðfjárbændur hafa í auknum mæli ætla að taka heim kjöt og reyna að selja það beint til neytenda segir Svavar allt of snemmt að segja til um það, sláturtíðin sé stutt á veg komin og engar tölur um heimtöku séu komnar í hús. Hann segist aftur á móti hafa heyrt í mjög mörgum bændum undanfarið sem ætli að gera meira af því í ár en áður. Það verði svo að koma í ljós hversu mikið verði um það.