Ný höfundalög kosta ríkið 234 milljónir

Snjallsímar, fartölvur, spjaldtölvur og aðrir miðlar eða tæki sem hægt …
Snjallsímar, fartölvur, spjaldtölvur og aðrir miðlar eða tæki sem hægt verður að nota við afritun munu skapa viðmið við greiðslu ríkisins til höfundaréttarsamtaka. AFP

Á föstudaginn lagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, fram nýtt lagafrumvarp um höfundalög. Meðal helstu breytinga frá fyrri löggjöf er að í stað þess að höfundaréttasamtök hafi hingað til fengið beint til sín hlutdeild af innflutningsgjöldum ýmissa stafrænna miðla og tækja í bætur, vegna þess möguleika að framleiddar séu eftirgerðir af verkum þeirra, mun ríkið nú skuldbinda sig til að greiða slíka upphæð til samtakanna óháð því hvort slíkt gjald verður rukkað við innflutning eða ekki.

Ríkið mun meðal annars greiða sem nemur 1% af tollverði allra tölva og snjallsíma sem fluttir eru hingað til landsins og 4% af USB-lyklum, gagnageymslum  og SD-minniskortum.

Höfundaréttarsamtök vildu breikka gjaldstofninn

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að tilefni endurskoðunarinnar séu óskir rétthafa um að breikka gjaldstofn höfundaréttargjalds vegna nýrrar tækni þannig að gjaldið greiðist af hvers konar fjölnota tækjum sem nýta má til upptöku og eftirgerðar verndaðra hljóðrita og myndrita. Í þennan flokk falla nánast öll tæki sem geta tekið afrit af hliðrandi og stafrænu efni, hvort sem það eru tölvur, símar eða annar slíkur búnaður.

Þá segir í athugasemdunum að heimild sé sett í lögin til að gera stafrænt eintak sem bundið sé við lögmætt upprunaeintak. Með því verði allur vafi tekinn af sem ríkt hefur um lögmæti þess að afrita höfundaréttarvarið efni sem dreift er án heimildar rétthafa.Þetta þýðir að einstaklingur sem á lögmætt eintak hafi heimild til að taka afrit af því.

Á rætur sínar að rekja til ársins 1984

Höfundaréttargjaldið, sem eru í raun bætur vegna afritunar efnis, var upphaflega sett í lög árið 1984, en árið 2000 var svo gerð breyting sem heimilaði víðtækari álagningu gjalda. Með reglugerð árið 2001 sem var talsvert umdeild á sínum tíma var meðal annars lagt gjald á geisladiska og búnað sem hægt væri að nota til mynd- og hljóðupptöku.

Fór úr 104 milljónum í 7,8 milljónir

Árið 1999 hafði höfundaréttargjaldið numið 63,1 milljón en fór upp í 104,3 milljónir árið 2003. Síðan þá hefur það lækkað mikið og árið 2015 nam það aðeins 7,8 milljónum. Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 22,6 milljónum í þennan útgjaldaflokk.

Ástæða þess hvað gjaldið hefur lækkað undanfarin ár getur meðal annars stafað af því að í fyrrnefndri reglugerð er talað um að gjaldið sé „Af tölvum með innbyggðum geislabrennurum/geisladiskaskrifurum“ auk þess sem það byggist að stórum hluta á óskrifuðum geisladiskum eða myndböndum og öðrum tækjum sem í dag eru úreld.

Mun kosta ríkið 234 milljónir árlega

Í nýju lögunum er hins vegar bætt við fjölda nýrra stafrænna tækja, meðal annars fartölv­um, spjald­tölv­um og tölv­um, hálfleiðaram­inni (USB-minn­islykl­um), sím­um fyr­ir farsíma­net, eða önn­ur þráðlaus net með mögu­leika á hljóð- og myndupp­töku til viðbótar við óskrifaða geisladiska, myndböndum og tækjum tengdum þeirri tækni.

Gert er ráð fyrir að árleg útgjöld ríkisins vegna þessa verði 234 milljónir króna, en ekki hefur verið gert ráð fyrir slíkum útgjöldum í fjárlögum og fjármálaáætlun. Á móti mun gjaldið sem nú leggst á tollverð innfluttra tækja sem falla undir núverandi lög væntanlega falla niður sem ætti að leiða til verðlækkunar á þeim vörum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert