Jarðskjálftahrina stendur nú yfir á Hengilssvæðinu. Skjálftarnir eru í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar og stafa af niðurdælingu Orku náttúrunnar af affallsvökva frá virkjuninni.
Síðdegis í gær höfðu mælst 18 jarðskjálftar á landinu, yfir 2 stig, á 48 klukkustundum. Kröftugasti skjálfinn mældist um kl. 8 í gærmorgun, 2,9 stig. Hann fannst í Hveragerði. Aðrir skjálftar voru heldur minni, á bilinu 2 til 2,8 stig.
Flestir skjálftanna eiga upptök um tvo kílómetra frá Hellisheiðarvirkjun og eru taldir stafa af niðurdælingu vökva frá virkjuninni. Mikið ónæði varð í Hveragerði á árunum 2011 og 2012 vegna jarðskjálfta vegna niðurdælingar. Þá var ákveðið að auka kröfur til fyrirtækja sem dæla niður vatni. Minna hefur borið á skjálftum síðan.