Vilja ekki bílaumboð í Mjóddina

Íbúar í Breiðholti eru ekki sáttir við að bílasala rísi …
Íbúar í Breiðholti eru ekki sáttir við að bílasala rísi í suðurhluta Mjóddarinnar, sem hefur verið skilgreind sem svæði til íþróttaiðkunar. mbl.is/RAX

Íbúar í Breiðholti eru ósáttir við að bílaumboðinu Heklu verði mögulega úthlutað lóð í suðurhluta Mjóddarinnar, enda fari slík starfsemi ekki saman við þá starfsemi sem er þar er fyrir. Þetta segir Jóhanna Dýrunn  Jónsdóttir formaður íbúasamtakanna Betra Breiðholt.

Samtökin boðuðu til fundar í Seljakirkju í kvöld vegna þeirra áforma borgaryfirvalda að úthluta Heklu 24 þúsund fermetra lóð fyrir starfsemi sína í Mjóddinni.

Skilgreint svæði fyrir íþróttaiðkun

„Íbúar eru alls ekki sáttir við þetta. Þetta er fyrirframskilgreint svæði sem á að vera fyrir íþróttaiðkun og það er svo margt í ferlinu sem hefur ekki verið nógu gott,“ segir Jóhanna Dýrunn.  Hún segir Betra Breiðholti hafa borist upplýsingar frá íþróttafélagi sem sótti um notkunarrétt á lóðinni. „Það hafði í huga að byggja upp íþróttastarfsemi þarna, sem er töluvert meira í takt við eðli svæðisins. Þetta er ekki staður fyrir bílasölu.“

Hún segir vissulega þakklátt að fyrirtæki sýni áhuga á að vera í Breiðholti, en þetta sé líka spurning um að vera á réttum stað.

„Breiðholt er fjölmennt hverfi og í svo fjölmennu hverfi þarf að vera íþróttaaðstaða. Þetta svæði var skipulagt undir slíka starfsemi og það væri fásinna að gefa það annað.“

Ekki fengið viðbrögð frá borgaryfirvöldum

Fundurinn í kvöld var haldinn að frumkvæði Sveins Hjartar Guðfinnssonar sem er fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í hverfisráði Breiðholts.  Jóhanna Dýrunn segir mikinn samhug hafa verið í fundagestum sem séu sammála um að halda málinu áfram á lofti.  Bæði hverfisráð og stjórn Betra Breiðholts hafi áður gert afstöðu sína ljósa, en enginn viðbrögð hafi enn borist frá borgaryfirvöldum.

Lóðaúthlutun til Heklu var til  umfjöllunar á fundi borgarráðs sl. fimmtudag. Viljayfirlýsing liggur fyrir en afgreiðslu málsins var  frestað.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu á fundinum fram þá tillögu að áður en málið yrði til lykta leitt yrði leitað umsagnar þeirra sem hagsmuna eiga að gæta í hverfinu, svo sem íþróttafélaga, íbúasamtaka og fulltrúa hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar.

Uppfært 20.9.2016 Orðalagi í inngangi fréttarinnar var breytt. Af honum mátti upprunalega skilja að búið væri að úthluta lóðinni til Heklu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert