Tróð sér inn í viðtal hjá Stöð 2

Birgitta Jónsdóttir á málþinginu.
Birgitta Jónsdóttir á málþinginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fulltrúar helstu stjórnmálaflokka landsins voru á meðal gesta á málþingi Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem var haldið í morgun. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði að misjafnt hlutfall karl- og kvenkyns viðmælenda í ljósvakamiðlum fjölmiðla sé ekki konum að kenna.

Frétt mbl.is: Konur mæta ekki vegna barna

Óásættanlegt

„Þetta hefur ekki allt með okkur að gera, eins og virðist vera afsökunin sem maður sá hjá þessum þáttastjórnendum. Mér finnst óásættanlegt að árið 2016, þegar svona mikið jafnræði ríkir og það er til svona mikið af flottum konum til að vera viðmælendur um mjög fjölbreytt málefni, að það sé ekki reynt meira,“ sagði Birgitta.

„Ég tróð mér inn í viðtal hjá Stöð 2 í gær og spurði: „Af hverju hefur enginn hjá Stöð 2 talað við mig í tvo mánuði?“,“  sagði Birgitta. „Ég hef líka lent í þessu með RÚV. Betur má ef duga skal.“

Frétt mbl.is: Konur viðmælendur í 33% tilfella

Katrín Jakobsdóttir tekur til máls á málþinginu.
Katrín Jakobsdóttir tekur til máls á málþinginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki einkamál kvenna

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði jafnrétti kynjanna ekki vera einkamál kvenna. „Það er jákvætt að sjá hvað þessir stóru miðlar eru að gera. Það er samt sláandi að 67% viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum eru karlar.“

Óttarr Proppé á málþinginu í morgun.
Óttarr Proppé á málþinginu í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segja oftar „nei“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, var spurður hverju hann myndi vilja breyta til að rétt kynjahlutfall nái fram að ganga í ljósavakamiðlum fjölmiðla. „Persónulega þá væri það að segja oftar „nei“ við fjölmiðla,“ sagði hann og uppskar mikinn hlátur í salnum.

Hann sagði formenn stjórnmálaflokka ekki endilega alltaf vera bestu viðmælendurna. Stundum hefðu aðrir betri yfirsýn um ákveðin málefni. „Það er vel hægt að ræða menntamál við aðra en menntamálaráðherra,“ sagði Óttarr.

Frétt mbl.is: Eigum enn óralangt í land

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert