Vill bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikilvægt er að gripið verði til aðgerða til þess að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Þetta sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um málið. Lausnin lægi að minnsta kosti að hluta í virðisaukaskattsprósentunni en það væri ekki nóg. 

„Það þarf líka að uppfæra ýmislegt í íslensku regluverki í fjölmiðlalögunum þótt ekki sé langt síðan við samþykktum ný lög í þinginu sem við þurfum að breyta til að mæta þeim tækninýjungum sem hafa komið fram. Það er nauðsynlegt að löggjafinn fylgi þeim tækninýjungum sem best,“ sagði ráðherrann.

Málshefjandi var Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sem lýsti áhyggjum sínum af stöðu fjölmiðla hér á landi, einkum minni ljósvakamiðla, og innti Illuga eftir því hvort til greina kæmi að styrkja rekstrarstöðu þeirra til að mynda með því að lækka eða fella niður virðisaukaskatt í tengslum við starfsemi þeirra.

Skipaður þverpólitískur starfshópur 

Menntamálaráðherra sagðist hafa rætt málið við forystufólk ljósvakamiðlanna um málið sem og forsætisráðherra og fjármálaráðherra, einstaka þingmenn og forystumenn í stjórnarandstöðunni. Sagðist hann taka fyllilega undir áhyggjur Helga. Hann hafi kynnt í ríkisstjórn þingsályktun í ríkisstjórn sem hann vonaði að næði fram að ganga um stofnun starfshóps til þess að gera tillögur að úrbótum í málinu.

Illugi sagðist gera ráð fyrir að starfshópinn skipuðu fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna á þingi sem og þeirra flokka sem kæmu nýir inn eftir næstu þingkosningar. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til menntamálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir 15. febrúar.

Tillögurnar myndu snúa að því „til hvaða aðgerða, lagabreytinga, reglugerðarbreytinga og annars, er nauðsynlegt að grípa til þess að mæta þeirri þróun og þeirri stöðu sem uppi er og háttvirtur þingmaður hefur gert að umtalsefni í þessari umræðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert