Ákvað að sleppa heimalærdóminum

Jenný Heiða Zawelski hefur fengið mikil og jákvæð viðbrögð frá …
Jenný Heiða Zawelski hefur fengið mikil og jákvæð viðbrögð frá foreldrum sem kannast við að heimalærdómur geti verið íþyngjandi fyrir börnin. Ljósmynd/JM

Það er enginn heimavinna á heimili Jennýjar Heiðu Zalewski, sem greindi frá því í Facebook-færslu í gær að hún hefði tekið upplýsta ákvörðun um að láta dóttur sína ekki læra heima á kvöldin og að sú ákvörðun nyti skilnings skólastjóra.

„Ég hef tekið upplýsta ákvörðun um að losa dóttur mína undan þessari kvöð. Það er ekkert heimanám á mínu heimili og skólastjórinn styður mína ákvörðun,“ skrifar Jenný Heiða. „Í staðinn lesum við saman, spilum eða horfum á fyndin vídeó á YouTube. Barnið mitt er lífsglaðara og samskipti okkar betri. Skora á fleiri foreldra að gera hið sama.“

Jenný Heiða hefur fengið mikil og jákvæð viðbrögð við færslunni frá öðrum foreldrum sem hafa upplifað heimanám sem íþyngjandi fyrir barn sitt. Nokkrir hafi sagt sína sögu og af árangurslausum tilraunum til viðræðna við skólayfirvöld. „Það er eins og enginn þori að standa upp og svara fyrir barnið sitt,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Barnið mitt varð mjög óhamingjusamt“

Jenný Heiða á dóttur á ellefta ári sem er virk í íþróttum og tómstundastarfi. Hún segir hana ekki eiga við nein vandamál eða námsörðugleika að stríða.

„Ég var með hana í Hjallastefnuskóla og þar var ekkert heimanám. Hún stóð líka mjög vel að vígi þegar hún hóf nám í Austurbæjarskóla í fyrra,“ segir hún.  Fyrsta veturinn í Austurbæjarskóla hafi hins vegar tekið að bera á vandamálum sem Jenný Heiða tengir heimanámi.

„Barnið mitt varð mjög óhamingjusamt. Henni leið mjög illa og hún var andlega þreytt,“ segir hún og kveður þetta hafa tekið mikið á þau foreldrana. „Ég talaði við námsráðgjafa og vildi fá aðstoð varðandi óhamingju dóttur minnar. Eins fór ég á nokkra fundi með skólastjóra og ræddi við hana um lausnir á þessu máli.“

Enginn fylgni milli heimanáms og námsárangurs

Þá las Jenný Heiða sér til um skólastefnu Reykjavíkurborgar á heimasíðu borgarinnar. „Þar kemur fram að það sé engin fylgni milli heimanáms og námsárangurs. Þar segir líka að heimanám eigi aldrei að vera íþyngjandi og það eigi ekki að skapa vandamál inni á heimilinu, né fyrir börnin.“

Með þessar upplýsingar í farteskinu hafi henni ekki fundist nein ástæða til að vera með heimanám og tilkynnti skólastjóra Austurbæjarskóla þá ákvörðun sína er skóli hófst að nýju í haust. „Skólastjóri Austurbæjarskóla tók vel í þetta og var mjög skilningsrík, ég get ekki sagt annað,“ segir hún. „Ég sagði við hana að það sé ekkert meira virði en að halda geðheilsu. Maður er ekkert virkari í námi ef maður er óhamingjusamur og þreyttur og skilar raunar alls ekki af sér góðum námsárangri þannig.“

Hún segir enn of stutt liðið á skólaárið til að meta árangurinn. „Hún er núna að byrja á fullu í íþróttum og skólanum. Það hefur þó aldrei verið kvartað undan að hún nái ekki að klára verkefni eða fylgist ekki með í tímum.“

Jenný Heiða segist alltaf hafa lesið með dóttur sinni og þær ræði málin saman og slíkt muni þær gera áfram. „Ég mun svo  að sjálfsögðu aðstoða hana við að læra undir próf, en ég er ekki að fara að sitja með henni eftir klukkan átta á kvöldin að leita að svörum í bókum eða kenna henni stærðfræði.“

Hún segir umfang heimalærdóms vissulega vera mismikið eftir skólum og hún geti bara talað af eigin reynslu. „Stelpan er í tómstundum og ég tel það að stunda félagslíf líka vera hluta af félagslegum þroska og andlegri vellíðan, en til þess hafði hún ekkert svigrúm með heimalærdóminum.“

Umfang heimalærdóms er mismikið eftir skólum.
Umfang heimalærdóms er mismikið eftir skólum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert