Milljónatap á dag og vetur í vændum

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Golli

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að frumvarp sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í morgun þess efnis að gefa út nýtt framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 og fella gamla framkvæmdaleyfið úr gildi verða lagt fyrir Alþingi á næstu dögum.

Hún segir frumvarpið vera lagt fram af illri nauðsyn, reynt hafi verið að koma á sáttum milli deiluaðila, þ.e. Landsnets og Landverndar sem kærði framkvæmdaleyfin til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. 

Úrskurðarnefndin felldi í ágúst tvo úrskurði sem stöðvaði allar framkvæmdir. Ragnheiður segir að tapið vegna stöðvunar á framkvæmdum nemi milljónum króna hvern dag og Landsnet í kappi við tímann vegna komu vetrar. „Það var því ekki talið mögulegt að bíða eftir úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Það gæti tekið langan tíma og óvissa um niðurstöðuna,“ segir Ragnheiður.

Hún segir hagsmunina gríðarlega mikla. Framkvæmdir séu hafnar á Bakka sem og við Þeistareykjavirkjun, eina sem vanti sé tenging frá virkjuninni við flutningskerfið. „Það er óásættanleg staða sem við getum ekki horft upp á verða að veruleika í ljósi þeirra hagsmuna sem þarna eru undir,“ segir Ragnheiður. „Þetta hefur einnig haft áhrif á önnur verkefni sem eru í burðarliðnum.“

Að sögn Ragnheiðar gefur lögfræðiálit sem unnið var í tengslum við frumvarpið til kynna að frumvarpið brjóti ekki í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Aðspurð hvort Landvernd geti kært málið aftur segir hún svo vera, en þó ekki til úrskurðarnefndarinnar þar sem nýtt framkvæmdaleyfi sé ekki stjórnsýsluákvörðun. Kæra þarf því nýtt framkvæmdaleyfi til dómstóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert