Ríkisstjórnin samþykkti í morgun frumvarp þar sem kveðið er á um heimild fyrir Landsnet til að reisa og reka raflínur milli Þeistareykjavirkjunar og iðnaðarsvæðisins á Bakka. Leggja á frumvarpið fyrir þingið fljótlega, en samkvæmt Sigurði Má Jónssyni, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, er með frumvarpinu verið að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er og þeim áskorunum sem hafi komið fram, meðal annars frá sveitarfélögum á svæðinu.
Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála stoppaði lagningu raflínunnar og raflínu að Kröfluvirkjun með úrskurði sínum í ágúst. Vildi nefndin að kærur Landverndar yrðu fyrst teknar fyrir í nefndinni áður en framkvæmdaleyfi yrðu gefin út.
Frétt mbl.is: Undirbúa lög vegna Bakka
Sveitarfélög á svæðinu og forsvarsmenn Landsnets og kísilversins á Bakka hafa lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins og þeirra seinkunna sem gætu orðið.
Eftir er að kynna málið fyrir þingflokkum, en í framhaldinu verður málið lagt fyrir Alþingi.