„Mér þykir þetta ekki hafa tekið þeim lagfæringum sem þyrfti og hef verið þeirrar skoðunar að það yrði ekkert lengra komist í að teygja stjórnarskrána heldur en orðið er,“ segir Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í stjórnskipunarrétti, í samtali við mbl.is spurð út í þingsályktunartillögu sem til umfjöllunar er á Alþingi um að Ísland gangist undir yfirþjóðlegt fjármálaeftirlit Evrópusambandsins í gegnum Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
Frétt mbl.is: Skiptar skoðanir um fullveldisframsal
Evrópusambandið fór upphaflega fram á að EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein færu með beinum hætti undir fjármálaeftirlit stofnana þess á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Samið var hins vegar um að formlega væri eftirlitið á hendi ESA og að málum vegna þess yrði hægt að vísa til EFTA-dómstólsins. Björg telur hins vegar að þrátt fyrir þær breytingar samrýmist það framsal valdheimilda sem fjármálaeftirlitið kalli á til viðbótar við fyrra framsal í tengslum við samninginn ekki stjórnarskránni að henni óbreyttri.
Frétt mbl.is: Vill ákvæði um valdaframsal
Björg segir ákveðinn tvískinnung ríkja í stjórnmálunum í þessum efnum. Litið sé svo á að brýn þörf á að viðhalda samstarfi í gegnum EES-samninginn réttlæti það að teygt sé sífellt meira á stjórnarskránni og bætt við nýjum og nýjum sviðum sem kalli á valdaframsal. Þessi rök séu í raun hin sömu og sýna fram á nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni. Þörf á ákvæði sem heimili framsal ríkisvalds sé einkum vegna EES-samningsins. „Mín skoðun er sú að forsendurnar sem voru uppi við gerð EES-samningsins 1992 séu brostnar. Þess vegna tel ég þessar lagfæringar, sem hafa verið gerðar til þess að fella þær að tveggja stoða kerfinu, ekki breyta eðli málsins. Þetta er nýtt framsal á nýjum sviðum.“
Frétt mbl.is: Stenst ekki stjórnarskrána
Þær íþyngjandi ákvarðanir sem um sé að ræða gagnvart lögaðilum og einstaklingum hér á landi, sem teknar yrðu af sérhæfðum eftirlitsstofnunum ESB á fjármálamarkaði, verða að sögn Bjargar teknar að þeirra frumkvæði og undirbúnar þar að öllu leyti. „Síðan verða þær einfaldlega sendar til afgreiðslu hjá ESA.“ Eftirlitið verði þannig aðeins að forminu til hjá ESA en í raun í höndum stofnana sambandsins. Það feli í sér framsal á framkvæmdarvaldi og að einhverju leyti dómsvaldi. Framsal samkvæmt EES-samningnum hafi upphaflega einkum snúist um eitt svið, það er sektavald á sviði samkeppnismála, en síðan hafi fleiri og óskyld svið bæst við.