Meira framsal en nokkur dæmi eru um

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði til á Alþingi í dag að frestað verði atkvæðagreiðslu þangað til í næstu viku um þingsályktunartillögu sem hefur verið til umfjöllunar á Alþingi um að Ísland gangist undir yfirþjóðlegt fjármálaeftirlit Evrópusambandsins í gegnum Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Hann sagði að þetta framsal á valdi samræmist ekki 2. grein stjórnarskrárinnar og vísaði í ummæli Bjargar Thorarensen, lagaprófessors, þess efnis.

Frétt mbl.is: Verður ekki lengra komist

Verulega íþyngjandi 

„Þar er um að ræða mál sem er í eðli sínu jákvætt en felur hins vegar í sér meira framsal á ríkisvaldi til yfirþjóðlegrar stofnunar en nokkur dæmi eru um, jafnvel þó að inngangan í EES sé tekin með,“ sagði Össur á Alþingi.

Hann bætti við að framsalið væri verulega íþyngjandi og veitti rétt til að grípa inn í hvers kyns fjármálastarfsemi og feli í sér miklu meira framsal en við höfum séð áður.

„Ég hef rök fyrir því að þetta rúmist ekki innan 2. greinar stjórnarskrárinnar,“ sagði Össur.

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Innan heimilda

Eygló Harðardóttir, starfandi utanríkisráðherra í fjarveru Lilju Alfreðsdóttur, svaraði fyrirspurn Össurar þannig að tillagan rúmist innan heimilda. „Menn hafa lagt mikla vinnu í þetta og vandað sig við þá vinnu,“ sagði Eygló.

Össur steig þá í pontu og lagði áherslu á að algjörlega ný staða væri komin upp í málinu. „Annar þeirra tveggja fræðimanna sem lagði til þá sem leið sem var útfærð af hálfu ríkisstjórnarinnar kemur fram og segir að sú útfærsla var ekki nægileg,“ sagði hann og sagði óásættanlegt að framkvæmdavaldið „gangi á skítugum skóm yfir stjórnarskrána“.

„Mér finnst ekki koma til mála að við samþykkjum svona mál þegar vafi leikur á þessu og þegar einn fremsti fræðingur landsins um stjórnarskrána segir að það sé verið að brjóta hana.“

Eygló lagði síðar til að gert yrði hlé á fundinum þannig að þingflokksformenn geti átt samtal um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert