Óvissa með áhrif Brúarvirkjunar á fuglalíf

Skipulagsstofnun telur fyrirhugaða framkvæmd Brúarvirkjunar í Tungufljóti í Bláskógabyggð hafa …
Skipulagsstofnun telur fyrirhugaða framkvæmd Brúarvirkjunar í Tungufljóti í Bláskógabyggð hafa neikvæði áhrif á ásýnd og landslag framkvæmdasvæðisins. mbl.is/ Sigurður Bogi Sævarsson

Skipulagsstofnun telur fyrirhugaða framkvæmd Brúarvirkjunar í Tungufljóti í Bláskógabyggð hafa neikvæð áhrif á ásýnd og landslag framkvæmdasvæðisins. Þá sé óvissa um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á fuglalíf svæðisins og þar sem framkvæmdasvæði einkennist af gróskumiklu votlendi og skóglendi sem nýtur sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd  beri að setja það skilyrði að ráðist verði í endurheimt votlendis í samráði við Umhverfisstofnun, Skógræktina, sveitarfélag og landeigendur.

Þetta kemur fram í mati Skipulagsstofnunnar á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda við Brúarvirkjun. Í matinu segir að helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar felist í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess miðað við núverandi aðstæður. „Svæðið er að mestu leyti ósnortið og einkennist af Tungufljóti og vel grónum bökkum þess enda um lindá að ræða en slíkar ár eru ekki algengar á Íslandi og sjaldgæfar á heimsvísu,“ segir í matinu.

Að framkvæmdum loknum telur stofnunin að svæðið muni einkennast af misumfangsmiklum mannvirkjum og verulega skertu rennsli í Tungufljóti á um þriggja km löngum kafla. „Fyrirhugað framkvæmdasvæði er þó í nokkurri fjarlægð frá fjölförnum vegum og ferðamannastöðum og neikvæð sjónræn áhrif verða mest frá frístundabyggð í nágrenninu auk þess sem sjónræn áhrif á þá ferðamenn sem leggja leið sína upp með Tungufljóti frá núverandi þjóðvegi munu verða mjög neikvæð.“

Eins þurfi að hafa í huga að fyrirhugað framkvæmdasvæði einkennist af gróskumiklu votlendi og skóglendi sem njóti sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd og sem forðast eigi að raska nema brýna nauðsyn beri til.

Skipulagsstofnun telur því mikilvægt að ráðist verði í endurheimt votlendis og birkikjarrs og að setja eigi sem skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi að fram komi á hvaða svæðum eigi að ráðast í endurheimt votlendis og birkikjarrs í samráði við Umhverfisstofnun, Skógræktina, sveitarfélag og landeigendur.

Skipulagsstofnun setur þá einnig fyrirvara við þá niðurstöðu sem fram kemur í gögnum um virkjunaráformin að þau hafi ekki mikil neikvæð áhrif á fugla, þar sem fuglarannsóknir hafi ekki farið fram í lónstæðinu sem telja megi líklegt að sé auðugt að fuglalífi. Þar sé m.a. hugsanlega að finna straumandavarp. „Skipulagsstofnun bendir á að straumönd er tegund á válista auk þess að vera ábyrgðartegund þar sem Ísland er eina landið í Evrópu þar sem tegundin verpir,“ segir í matinu.

Því þurfi að setja sem skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi að rannsakað verði hvort straumönd verpi í eða við lónstæði fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar og því svæði sem fer undir stíflumannvirki áður en framkvæmdir hefjast við stíflu eða lónstæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert