Sauðfjárbændur verði áfram fátækir

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi nýja búvörusamninga á Alþingi í dag og sagði þá þýða að enn verði við lýði verðsamráð í mjólkuriðnaði. Hún sagði samningana festa það í sessi að sauðfjárbændur verði áfram fátækir. 

Einnig sagði hún að algjört samráðsleysi hafi verið haft við lykilaðila og að lögin feli í sér vantraust á íslenskan landbúnað. Honum sé ekki treyst til að vera í samkeppni við erlendar matvörur.

Vildi vita hvað átti að gera betur

„Ráðherra hefur sagt að það hefði mátt gera betur í þessum samningum. Ég vil vita hvað það var sem Sigurður Ingi [Jóhannsson, forsætisráðherra] hefði átt að gera betur í aðdraganda þessara samninga,“ spurði hún Gunnar Braga Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Hann sagði að verið væri að horfa til langrar framtíðar í samningunum og búa um kerfi sem tryggi að landbúnaður muni þrífast á Íslandi á komandi árum.

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Reikna áhrif á einstök bú

„Alltaf þegar við gerum samninga er hægt að vera vitur eftir á og læra af þeim. Það hefði kannski þurft að vera hægt að reikna betur áhrif á einstök bú. Ég er ekki að segja að forveri minn eða einhverjir aðrir hefðu átt að vanda sig betur. Við þurfum að horfa til baka og læra hvað við hefðum getað gert öðruvísi,“ sagði Gunnar Bragi og bætti við að hagfræðingur hafi verið ráðinn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið til að fara í þessa útreikninga.

Áfram fátækir

Björt kvaðst hafa vonað að ráðherra ræddi um kerfisbreytingar. „Þessi nýi búvörusamningur styrkir það í sessi að sauðfjárbændur fá áfram að vera fátækir,“ sagði hún. Slíkt væri innbyggt í þau kerfi sem hafi verið notast við hingað til og þannig verði það áfram með nýju búvörusamningunum.

Gunnar Bragi svaraði þessu þannig að verið væri að stíga ákveðna átt í kerfisbreytingu með búvörusamningunum. „Ef hann [þingmaðurinn] er að tala um enn þá stærri breytingar væri gaman að heyra þær. Ég mótmæli því að háttvirtur þingmaður skuli standa hér og segja að bændur séu fátækir. Langflestir bændur á Íslandi búa býsna vel og hafa það gott,“ sagði hann.

Björt talaði um fátæka sauðfjárbændur á Alþingi.
Björt talaði um fátæka sauðfjárbændur á Alþingi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bar af sér sakir

Skömmu síðar steig Björt í pontu og vildi bera af sér sakir. „Landbúnaðarráðherra sagði að ég bæri ekki hag bænda fyrir brjósti. Ég vil frábiðja mér svona ummæli, sérstaklega frá manni sem þekkir ekki hag bænda og hefur ekki alist upp á sauðfjárbúi eins og ég hef gert.“

Svívirða

Gunnar Bragi gerði þá alvarlegar athugasemdir við fundarstörf forseta og þótti undarleg að Björt fengi að bera af sér sakir. „Ef þingmenn fá að bera af sér sakir ef þeir eru gagnrýndir þá gera þeir ekki annað hér á Alþingi,“ sagði hann og gagnrýndi ummæli Bjartar um að bændur séu fátækir. „Að tala niður til bænda með þessum hætti er náttúrulega svívirða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert