Sigurjón og Yngvi sýknaðir í Hæstarétti

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var sýknaður ásamt Yngva …
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var sýknaður ásamt Yngva Erni Kristjánssyni í skaðabótamáli LBI. mbl.is/Þórður

Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands og Yngvi Örn Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs bankans, voru í dag sýknaðir af öllum kröfum slitastjórnar bankans sem hafði krafið þá um greiðslu á 1,2 milljörðum auk vaxta vegna fjártjóns sem þeir áttu að hafa valdið bankanum með athöfnum sínum eða athafnaleysi í tengslum við hlutabréfakaup á árunum 2007-2008.

Frétt mbl.is: Dæmdir til að greiða 238 milljónir

Hæstiréttur snéri þar með við dómi héraðsdóms sem hafði dæmt Sigurjón og Yngva til að greiða samtals 237,7 milljónir í skaðabætur. Dæmdi hann jafnframt slitastjórnina til að greiða Sigurjóni og Yngva 5 milljónir í málskostnað.

Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur.
Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur.

Málið snýst um kaup bankans á hlutabréf í bankanum sjálfum frá 7. nóvember 2007 til 25. júlí 2008 fyrir 1,208 milljarða í fimm viðskiptum. Sagði í stefnu málsins að saknæmið hafi falist í því að kærðu hafi „af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gefið samþykki fyrir umræddum kaupum þótt [þeir] hafi vitað eða mátt vita að ekki væru uppfyllt skilyrði áhættureglna bankans fyrir kaupunum og reglunnar um að bankinn mætti ekki eiga nema 10% eigin hluti.“ Þá hefðu þeir „sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hlutast ekki til um að hlutabréfin yrðu seld þegar fyrir lá að kaupin höfðu verið gerð án heimildar og í bága við reglur bankans og lög.“

Vísar Hæstiréttur til ráðningasamnings stjórnendanna þar sem bankinn skuldbatt sig til að taka vátryggingu, svokallaða hefðbundna stjórnendatryggingu, sem eigi að bæta tjón af athöfnum eða athafnaleysi stjórnenda. „Ákvæðin verða ekki túlkuð á annan veg en þann að með þessu hafi aðaláfrýjendur [innsk. blm: Sigurjón og Yngvi]  mátt treysta því að þurfa ekki að bæta gagnáfrýjanda [insk. blm: Landsbanka Íslands] tjón, sem þeir kynnu að valda honum í störfum sínum, að því tilskildu að tjónið yrði bætt samkvæmt skilmálum slíkrar tryggingar.“

Vegna þeirrar skuldbindingar að vátryggja stjórnendurnar og þannig halda þeim skaðlausum vegna tjóns telur Hæstiréttur að bankinn hafi firrt sig rétti til að krefja þá um bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert