Helga Kristín Auðunsdóttir, varaformaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, hefur staðfest við mbl.is að hún hafi einnig sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum. Hvorki formaður né varaformaður Landssambands sjálfstæðiskvenna eru því enn í flokknum, eftir að þær Helga Dögg Björgvinsdóttir, núverandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, Þórey Vilhjálmsdóttir og Jarþrúður Ásmundsdóttir, fyrrverandi formenn landssambandsins, tilkynntu í gær að þær hafi sagt sig úr flokknum.
Haft var eftir Jarþrúði í fréttavef RÚV í gær að 11 af 14 stjórnarmeðlimum Landssambands Sjálfstæðiskvenna hafi, eða ætli að segja sig úr stjórninni og að í þeim hópi séu nokkrar konur sem ætla að segja sig alfarið úr Sjálfstæðisflokknum. Helga Dögg staðfesti þetta í samtali við mbl.is fyrr í dag og þær Þórey segjast báðar hafa heyrt frá öðrum flokksfélögum sem ætli að fylgja í fótspor þeirra.
Viðbrögðin við þessari ákvörðun þeirra hafi þá verið meiri og jákvæðari en þær hafi átt von á. En í yfirlýsingu sem þær Helga Dögg, Þórey og Jarþrúður birtu á Facebook í gær kom fram að þær telji „fullreynt að hreyfa við þeim íhaldssömu skoðunum og gildum sem ríkja um jafnréttismál í Sjálfstæðisflokknum.“
Frétt mbl.is: Meiri og jákvæðari viðbrögð en von var á
Frétt mbl.is: Prófkjörsleiðin ekki gallalaus
Frétt mbl.is: Þrír formenn sjálfstæðiskvenna yfirgefa flokkinn