„Mín skoðun hefur verið sú að á meðan ekkert slíkt er til staðar sé þetta á ábyrgð Alþingis. Þeir eiga ekki að setja lög nema þau standist stjórnarskrána og þeir verða að axla þá ábyrgð að mínu mati,“ segir Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í Evrópurétti, í samtali við mbl.is. Vísar hann þar til þess að ekki sé til staðar hér á landi sérstakur dómstóll til þess að meta hvort lög standist stjórnarskrána. Þar með sé ábyrgðin í þeim efnum hjá þinginu.
Frétt mbl.is: Vilji til að funda með Björgu
Tilefnið er þingsályktunartillaga sem liggur fyrir Aþingi um að Ísland gangist undir yfirþjóðlegt fjármálaeftirlit Evrópusambandsins í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Skiptar skoðanir eru bæði á meðal þingmanna og lögspekinga um það hvort það standist stjórnarskrána. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók ekki endanlega afstöðu til þess í umsögn sinni um þingsályktunartillöguna og sagði hlutverk dómstóla að skera úr um það lagalega séð.
Stefán Már telur slík vinnubrögð ekki ganga á meðan ekki sé til staðar neitt sérstakt kerfi til þess að skera úr um það hvort lög standist stjórnarskrána. Hvorki stjórnlagadómstóll, eins og þekkist víða erlendis, né nefnd skipuð sérfróðu fólki á þessu sviði sem geti annað hvort veitt umsagnir eða kveðið upp úrskurði. Eins og staðan sé i dag verði einhver sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta að láta reyna á slíkt og það geti verið snúið mál.
Frétt mbl.is: Frekara kröfur um framsal valds
Spurður um þingsályktunina um fjármálaeftirlit Evrópusambandsins segist Stefán sammála því að þar sé um að ræða stærsta skrefið í framsali á vandheimildum til erlendra stofnana síðan EES-samningurinn hafi verið gerður. EES-samningurinn sjálfur hafi verið alveg á mörkunum að standast stjórnarskrána. Síðan hafi sífellt bæst fleira við smám saman. Hann tekur undir með Björgu Thorarensen lagaprófessor í þeim efnum. „Við Björg erum alveg sammála um þetta.“
Björg sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að hún teldi að lengra yrði ekki komist í að teygja á stjórnarskránni í þessum efnum og að fjármálaeftirlitið samrýmdist henni ekki óbreyttri. Stefán bendir á að gerðar hafi verið breytingar á upphaflegu fyrirkomulagi þannig að nú ætti fjármálaeftirlitið gagnvart EFTA/EES-ríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein að fara í gegnum Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) en eftir stæði, sem þau Björg hefðu bent á í greinargerð á sínum tíma, að valdaframsalið væri mjög víðtækt.
Frétt mbl.is: Verður ekki lengra komist