Stjórn Fjöreggs, félags um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, segja stjórnvöld ekki hafa haft samband við samtökin vegna lagningar háspennulínu frá Kröflu að Bakka.
Í fréttatilkynningu frá Fjöreggi mótmæla samtökin þeirri fullyrðingu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fram kom í hádegisfréttum RÚV sl. miðvikudag, að allra leiða hafa verið leitað til þess að ná deiluaðilum saman að lausnum vegna lagningar háspennulínanna.
Frétt mbl.is: Gróft brot á mannréttindum
„Stjórnvöld hafa ekkert samband haft við Fjöregg og má því kalla sáttaumleitanir ríkisstjórnarinnar sýndarviðræður þar sem vilji og skoðanir félagsins hafa verið virt að vettugi,“ segir í tilkynningunni. Þess er þá aukinheldur krafist að ráðherra dragi ummæli sín til baka þar sem þau eigi ekki við rök að styðjast.
Fjöregg, hefur ásamt Landvernd, lagt hafa fram kæru vegna útgáfu framkvæmdaleyfis Skútustaðahrepps vegna lagningar raflínu frá Kröflu að Þeistareykjum.
„Ennfremur harmar stjórn félagsins fyrirhugaða lagasetningu vegna málsins þar sem hún brýtur á rétti samtakanna til að fá skorið úr um lögmæti ákvarðana sveitarfélagsins í Bakkalínumálinu.“