Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af nokkrum fjölda ökumanna í nótt vegna gruns um ölvunar- eða fíkniefnaakstur
Fyrsta ökumanninn stöðvaði lögregla á Suðurlandsvegi við Bláfjöll um sex leytið í gærkvöldi, en hann var grunaður um að aka bifreið undir áhrifum fíkniefna og fyrir að hafa slík efni í fórum sínum.
Þá var bifreið stöðvuð við Sólheima um hálftíuleytið í gærkvöldi. Ökumaðurinn, sem hefur verið sviptur ökuréttindum, var grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og var um ítrekað brot að ræða.
Einn var handtekinn við Stórhöfða um hálfeittleytið í nótt og var hann grunaður um að valda tjóni á bifreið. Maðurinn var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu vegna rannsókn málsins.
Lögregla hafði einnig afskipti ökumanni bifreiðar við Gullinbrú rétt fyrir tvö í nótt. Ökumaðurinn var ung kona og er hún grunuð um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, fyrir að aka eftir að hafa verið svipt ökuréttindum og fyrir rangar sakagiftir, en konan gaf upp nafn systur sinnar þegar lögregla hafði af henni afskipti.
Skömmu síðar var bifreið stöðvuð á Sæbraut við Höfða. Sá ökumaðurinn var einnig grunaður um ölvunarakstur og akstur án réttinda , en hann hafði látið hjá líða að endurnýjað ökuréttindi sín.
Þá var bifreið stöðvuð í Ármúla undir þrjú í nótt og var ökumaðurinn, sem aldrei hefur öðlast ökuréttindi, grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Um hálftíma síðar var bíll stöðvaður á Háaleitisbraut og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.
Loks barst lögreglu tilkynning um um umferðaróhapp á Geirsgötu um fjögurleytið í nótt. Tjónvaldurinn er grunaður um ölvun við akstur og var hann vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.