„Mér finnst það svolítið gagnrýnisvert að verið sé að fara í þessar þrjár borgir til þess að skoða þessi mál. Það hefði verið affarasælla að velja frekar borgir sem eru af svipaðri stærð og Reykjavík eða að minnsta kosti sambærilegar,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og stofnana sem tengjast samgöngum eru á leið í ferð til Kaupmannahafnar, Strasbourgar í Frakklandi og Vancouver í Kanada til að kynna sér reynslu borganna af umgjörð léttlestarkerfa. Svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins segir að fyrst og fremst sé verið að horfa til góðra fyrirmynda.
Frétt mbl.is – Leita góðra fyrirmynda í lestarmálum
„Þetta er væntanlega einhver frumkönnun á málinu en það eru spár uppi um það hvernig samgöngur muni þróast í borgum eins og til dæmis sú bylting sem er að verða núna með snjallsímum,“ segir Kjartan. Hann segir lestarbundnar samgöngur verða fyrsta fórnarlambið þegar snjallsímaforrit líkt og Uber, sem notað er til þess að panta ferðir, verði leitt inn í almennar samgöngur.
Kjartan segir þetta ekki fyrsta skipti sem borgin skoði sporvagnakerfi sem þetta því fyrir tíu árum var málið einnig skoðað. Þá var aftur á móti farin sú leið að heimsækja borgir sem þóttu svipaðar að stærð og sambærilegar Reykjavík.
Nú er verið að heimsækja borgir sem eru mun fjölmennari og stærri en Reykjavík og óskuðu Sjálfstæðismenn því eftir rökstuðningi fyrir því af hverju þessar borgir urðu fyrir valinu.
„Mér kemur það spánskt fyrir sjónir að það sé verið að velja í rauninni þrjár stórborgir. Ég hef reyndar gagnrýnt þetta áður og verið undrandi þegar borgin er að skipuleggja ferðir. Það er eins og viljinn sé mun meiri til að heimsækja heimsborgir. Mér finnst alla vega fyrir mitt leyti ég hafa lært mun meira á því að skoða borgir sem eru svipaðar að stærð og Reykjavík í mannfjölda, þá er samanburðurinn svo skýr.“