Styður ekki þá sem „vinna á bak við tjöldin“

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur alltaf legið fyrir að ég styð Sigmund Davíð til formennsku, það er klárt,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Kosið verður á milli þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar í formannsembætti Framsóknarflokksins á flokksþingi sem fram fer dagana 1. og 2. október.

Gunnar Bragi segir í samtali við mbl.is að hann ætli ekki gefa kost á sér í embætti varaformanns flokksins en að hann muni hvetja Lilju Dögg Alfreðsdóttur utanríkisráðherra til þess að bjóða sig fram. „Ég mun hvetja hana í varaformanninn og styðja hana hundrað prósent til þess.“

Lilja Dögg greindi mbl.is frá því fyrr í dag að hún styddi Sigmund Davíð og að hún væri enn að íhuga hugsanlegt varaformannsframboð sitt. Hún sagðist gera ráð fyrir að ákvörðun sín lægi fyrir á næstu dögum. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, greindi frá framboði sínu til varaformanns í gær.

Frétt mbl.is – Lilja Dögg styður Sigmund Davíð

Gunnar Bragi segir Sigmund Davíð og Lilju Dögg vera gott lið til að leiða flokkinn. „Ég mun ekki styðja það fólk sem búið er að vinna á bak við tjöldin í flokkum í langan tíma, þau Sigurð Inga og Eygló Harðardóttur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert