Mikið í húfi fyrir ráðherrana

Erfitt er að spá fyrir um hvort Sigurður Ingi Jóhannsson …
Erfitt er að spá fyrir um hvort Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra eða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins muni fara með sigur af hólmi í formannskosningunni um næstu helgi. mbl.is/Kristinn

Það er mikið í húfi fyrir þá einstöku ráðherra Framsóknarflokksins sem búnir eru að skipa sér í fylkingar,“ segir Baldur Þórhallsson, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. „Þeir hljóta að óttast að verði þeirra fylking undir dragi það úr möguleikum þeirra sem einstaklinga að eiga sæti í næstu  ríkisstjórn.

Erfitt er að spá fyrir um hvort Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra eða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, muni fara með sigur af hólmi í formannskosningunni sem fram fer á flokksþingi framsóknarmanna um næstu helgi. Ljóst má hins vegar telja að einhver hópur framsóknarmanna verður ósáttur við niðurstöðu formannskjörsins.

Frétt mbl.is: Styður ekki þá „sem vinna á bak við tjöldin“

„Sigmundur Davíð á mjög dyggan stuðningshóp í Framsóknarflokknum sem styður hann og telur hann í raun hafa bjargað þjóðinni frá Icesave og jafnvel Evrópusambandsaðild,“ segir Baldur. „Þetta fólk er tilbúið að styðja hann fram í rauðan dauðann. Síðan er hópur innan flokksins sem finnst Sigmundur Davíð hafa misstigið sig mjög illa varðandi Wintris-málið.“

Sjónarmið sem ógjörningur er að sætta

Hann segir í raun ógjörning að sætta þessi sjónarmið. „Það er ekki hægt að finna neina málamiðlun í þessu máli og þess vegna leiðir þetta til svona harðra átaka eins og við erum að sjá núna.“ Baldur bendir á að sú ákvörðun Sigmundar Davíðs að þvertaka fyrir það að stíga til hliðar eigi sinn þátt í stöðunni sem nú er uppi.

Baldur segir mörgum hafa þótt athyglisvert hve lengi forystumenn Framsóknarflokksins …
Baldur segir mörgum hafa þótt athyglisvert hve lengi forystumenn Framsóknarflokksins héldu áfram að verja Sigmund Davíð eftir að Wintris-málið kom upp. Skjáskot/SVT

„Honum hefði verið í lófa lagið að stíga til hliðar fyrir nokkrum vikum og benda þá á væntanlegan arftaka sinn, t.d. Lilju Dögg Alfreðsdóttur. Hann hefur hins vegar algjörlega þvertekið fyrir það,“ segir hann og bendir á að þar komi væntanlega líka til sá kjarni flokksins sem styðji Sigmund Davíð út fyrir gröf og dauða. „Með því að benda á eftirmann sinn hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir þessi átök, því það hefði verið mjög erfitt fyrir Sigurð Inga fyrir 3-4 vikum að fara gegn Lilju Dögg.“

Varaformannskjörið getur haft áhrif á andrúmsloftið

Baldur segir útkomu varaformannskjörsins geta haft áhrif á hvernig andrúmsloftið verði í Framsóknarflokknum að loknu flokksþingi, því menn virðist líka skipta sér í fylkingar í þeim efnum.

Frétt mbl.is: Lilja Dögg styður Sigmund Davíð

Frétt mbl.is: Voru búin að ákveða að setja Sigmund af

„Sigurður Ingi hefur lýst því yfir að hann sé ekki tilbúinn að vera varaformaður undir Sigmundi Davíð. Við vitum Lilja Dögg er stuðningsmaður Sigumundar Davíðs og Eygló Harðardóttir er líklega stuðningsmaður Sigurðar Inga. Það gæti því farið þannig að ef annar hópurinn nær að fanga bæði formanns- og varaformannsembættið gæti hinn hópurinn upplifað það sem svo að það væri mjög að sér vegið,“ segir Baldur.

Eygló hefur gefið þegar upp að hún vilji ekki vera varaformaður undir Sigmundi Davíð. „Hvernig á hún þá að geta setið í ríkisstjórn undir hans forystu eftir næstu kosningar?“ spyr hann. „Flokkurinn er að verða mjög illa klofinn.“

Þrengir stöðu Lilju Daggar

Lilja Dögg er vonarstjarna flokksins í augum margra framsóknarmanna. Hún hefur lýst yfir stuðningi við Sigmund Davíð, en vinátta þeirra nær út fyrir flokkspólitísk mörk. Baldur segir stuðning hennar við Sigmund Davíð vissulega þrengja stöðu hennar að ákveðnu leyti.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Sigurður Ingi Jóhansson forsætisráðherra. Lilja …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Sigurður Ingi Jóhansson forsætisráðherra. Lilja Dögg er vonarstjarna flokksins í augum margra framsóknarmanna og segir Baldur það mögulega sætta ólík sjónarmið verði hún kjörin varaformaður á móti formennsku Sigurðar Inga. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þessi ítrekaði afdráttarlausi stuðningur hennar við Sigmund Davíð hann hefur til að mynda komið í veg fyrir að hún geti boðið sig fram til formanns og verið þannig málamiðlunaraðili.“ Hann segir þetta vissulega líka geta þrengt stöðu hennar þegar komi að varaformannskjöri. „En svo kann líka að koma fram það sjónarmið, t.d. ef Sigurður Ingi verður kjörinn, að þá kjósi menn frekar Lilju Dögg til að stuðningsmenn Sigmundar verði ekki æfir.“

Tefla djarft með afdráttarlausum yfirlýsingum

Baldur kveðst þó engu að síður telja þau Gunnar Braga,  Lilju Dögg og í rauninni Vigdísi líka tefla nokkuð djarft með afdráttarlausum yfirlýsingum sínum til stuðnings Sigmundi Davíðs. „Kannski sérstaklega Gunnar Bragi, sem situr í þessari ríkisstjórn undir forystu Sigurðar Inga. Það getur ekki verið þægilegt andrúmsloftið í ráðherrahópi Framsóknarflokksins.“

Frétt mbl.is: Brigsl, svik og óheiðarleiki

Þeir einstöku ráðherra Framsóknarflokksins sem þegar eru búnir eru að skipa sér í fylkingar hljóti sömuleiðis að vera meðvitaðir um það að verði þeirra fylking undir dragi það úr möguleikum þeirra sem einstaklinga á að eiga sæti í næstu  ríkisstjórn.

Erfitt að starfa saman eftir deilur

Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi eru báðir oddvitar í sínu kjördæmi og því líklegir til að sitja á þingi fyrir Framsóknarflokkinn eftir næstu kosningar.

Baldur segir að vissulega geti verið erfitt fyrir þá að starfa saman eftir þessar deilur, en menn hafi lent í öðru eins í pólitík. „Höskuldur Þórhallsson og Sigmundur Davíð hafa lengi eldað grátt silfur saman en eigi að síður starfað saman innan þingflokksins. Eins má nefna sem dæmi að Þorsteinn Pálsson starfaði í mörg ár í ríkisstjórn undir forystu Davíðs Oddssonar þó að Davíð hafi unnið hann í formannskjöri, þótt það hafi vissulega ekki verið jafn hatrammt.

Þetta hafa oft verið innanbúðarátök í flokkum en menn hafa svo þurft að slíðra sverðin svo ekki kæmi til klofnings og menn munu væntanlega reyna það í lengstu lög.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka