„Maður vonar að þetta sé tilfallandi og verði fljótt að ganga yfir. Manni finnst þetta ekki beint geðslegt,“ segir Guðrún Guðný Elíasdóttir Long, íbúi í Súðavík, en tilkynnt var um það í morgun að saurgerlar hefðu fundist í neysluvatni í bænum.
Á vef heilbrigðiseftirlits Vestfjarða kemur fram að sýni hafi verið tekið síðastliðinn fimmtudag en niðurstöður leiddu í ljós að vatnið stæðist ekki gæðakröfur vegna kólígerla og saurgerla (E.coli). Í tilkynningu sem birtist á vef sveitarfélagsins í morgun sagði að tilkynning um þessa niðurstöðu hafi borist í morgun.
Af þessum sökum voru íbúar Súðavíkur beðnir um að sjóða allt neysluvatn í varúðarskyni. Guðrún segist hafa soðið mikið vatn og sett í vatnsflöskur inn í ísskáp í dag. „Maður er svo vanur að geta skrúfað frá krananum og fengið sér kalt vatn og drukkið. Ég drekk svo mikið vatn að ég er búin að vera að sjóða vatn á fullu í dag,“ segir hún.
Guðrún segir fréttirnar í morgun hafa komið sér verulega á óvart. „Maður hefði skilið þetta ef um hefði verið að ræða opið vatnsból en þar sem við erum með borholur er maður ferlega hissa að heyra af þessu,“ segir Guðrún. Hún segir þetta vera í fyrsta skipti sem hún muni eftir að mál sem þetta komi upp. „Auðvitað kom ýmislegt upp þegar hérna voru opin vatnsból. Þá voru dauðar rollur og fuglar stundum að enda þar. En eftir að við fengum þessar borholur hélt maður að þetta væri búið.“
Anton Helgason, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, segir að óvenjulegt sé að saurgerlamengun af þessu tagi komi upp í borholuvatni. Önnur sýni hafi hins vegar verið tekin í dag og staðan komi betur í ljós þegar niðurstöður úr þeim verða ljósar.
Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir að þær niðurstöður muni koma í ljós á morgun. „Við erum með borholuvatn og svona hefur aldrei mælst hjá okkur en það kemur í ljós með þessum seinni prufum á morgun hvar meinið er,“ segir hann. „Þetta er samt jákvætt að því leyti að þetta sýnir okkur hvað eftirlitið er mikið á svæðinu.“
Þá segist Guðrún hafa verið hissa á því að íbúar hefðu ekki verið látnir vita með öðrum hætti í morgun en í gegnum netið. „Nú búa tengdaforeldrar mínir við hliðina á okkur og þau eru ekki mikið á netinu. Manni hefði þótt eðlilegra að það hefði verið farið með miða til eldra fólks til dæmis,“ segir hún. Auk tilkynningarinnar á vef sveitarfélagsins var fjallað um málið í hádegisfréttum, en íbúar voru ekki látnir vita með öðrum hætti.
„Það er ekki eins og þetta sé mörg þúsund manna bær. Það væri vel hægt að taka upp símann og hringja í hvern og einn fyrir sig. Maður veit að það er slatti af eldra fólki sem er ekki að lesa fréttir á netinu og svo eru líka útlendingar hér sem skilja kannski ekki íslensku,“ segir Guðrún. Þá segir hún einnig að harðfiskverkunin í bænum hafi ekki fengið neina sérstaka tilkynningu, þrátt fyrir að mikið af vatni sé notað í versmiðjunni. „Maður hefði haldið að það ætti að hafa samband við matvælaframleiðslu.“
Pétur segir að tekin hafi verið ákvörðun um að setja fréttirnar á vef sveitarfélagsins og á Facebook, en þar sem ekki hafi verið tekin tvöföld sýnataka hafi verið ákveðið að bíða með frekari tilkynningar. „Þessu getur auðvitað fylgt ákveðið rask svo við verðum að feta milliveginn á meðan við bíðum eftir staðfestingu þetta,“ segir hann. „En ef það reynist vera mengun í vatninu munum við setja öll viðvörunarljós af stað. Það þarf yfirleitt tvær sýnatökur svo við erum bara að bíða eftir því núna.“
Fyrr í haust bárust fréttir af því að neysluvatn á Flateyri hefði verið mengað af saurgerlum í 16 daga án þess að íbúar bæjarfélagsins væru upplýstir um það. Anton segir að engin tengsl séu á milli saurgerlamengunarinnar á Flateyri nýverið og Súðavíkur nú. Þar er uppistöðuvatn en í Súðavík er borholuvatn. Mengunina á Súðavík megi hugsanlega rekja til mikillar úrkomu að undanförnu. Enn sé þó of snemmt að segja til hvað valdi menguninni núna.
Áður hafi íbúar ekki verið upplýstir fyrr en það hefur legið ljóst fyrir að um mengun sé að ræða, það er við aðra sýnatöku, því það geti alltaf eitthvað komið upp við sýnatöku sem geri það að verkum að niðurstaðan sé kannski rétt. En greinilegt sé að fólk vilji fá upplýsingar strax og því verði það þannig í framtíðinni að tilkynning verður send út um leið og grunur leikur á að um saurgerlamengun sé að ræða.
„Þetta tók auðvitað alltof langan tíma á Flateyri svo mér finnst sveitarfélagið vera að bregðast mjög hratt við í þessu tilviki. En við gátum lært af þeirra reynslu,“ segir Pétur.