Borgarstjórn hefur samþykkt að hækka fæðisgjald í leik- og grunnskólum borgarinnar um 100 krónur á dag. Breytingin tekur gildi 1. október næstkomandi.
Skúli Helgason, formaður Skóla- og frístundaráðs og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir borgarstjórn vera að bregðast við áskorunum frá foreldrum, leikskólastjórum og skólastjórum um að hækka fæðisgjald, að því gefnu að það fari beint í hráefnisframlögin.
„Við erum sammála um að þarna er ákveðið svigrúm til að bæta í og svara þessu kalli,“ segir Skúli í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Hækkunin er liður í samþykkt borgarráðs frá 15. september um 920 milljóna króna viðbótarfjárveitingu til skóla og leikskóla í borginni.