Reyna að vekja upp Rússagrýlu aftur

Rússneska sendiráðið í Reykjavík.
Rússneska sendiráðið í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Rússneskar herflugvélar virtu alþjóðlegar reglur þegar þær flugu undir íslenskri farþegaþotu á fimmtudag, að sögn Alexey Shadskiy, sendiráðsnautar í rússneska sendiráðinu. Hann segir fréttir af ferðum vélanna skiljanlegar sem yfirskyn til að opna herstöð aftur í Keflavík. Verið sé að vekja upp gamla Rússagrýlu.

Morgunblaðið sagði frá því í dag að rússneskar sprengjuflugvélar hafi flogið beint undir íslenskri farþegaþotu sem var á leið frá Keflavík til Stokkhólms á fimmtudag. Atvikið er sagt hafa gerst á íslenska flugstjórnarsvæðinu skammt frá því norska og rússnesku vélarnar hafi slökkt á staðsetningarbúnaði, ekki tilkynnt um ferðir sínar eða látið vita af sér.

Frétt mbl.is: Sprengjuflugvél flaug undir íslenskri þotu

„Það er afar skiljanlegt hvers vegna það er skrifað svona í blöðum hérna. Þetta er yfirskyn til að opna Keflavíkurherstöðina á ný. Það er verið að vekja Rússagrýlu aftur til lífsins,“ segir Shadskiy við Mbl.is.

Hann bendir á að atvikið hafi átt sér stað utan íslenskrar lofthelgi og að rússnesku vélarnar hafi verið um tveimur kílómetrum neðar en íslenska farþegaþotan. Það sé í samræmi við reglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um lágmarksfjarlægð á milli flugvéla á lofti.

Dregur frásögnina í efa

Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir flugstjóra íslensku farþegaþotunnar að hann hafi séð rússnesku flugvélarnar tvær og að þær hafi verið sex til átta þúsund fetum fyrir neðan. Vegna þess að þær hafi verið með slökkt á staðsetningarbúnaði hafi árekstrarvarar íslensku þotunnar ekki numið nærveru þeirra. Segir hann athæfi þeirra mikinn háskaleik.

Shadskiy fullyrðir að eftir fund Varðbergs þar sem breskur yfirflotaforingi NATO hélt erindi á föstudag hafi íslenskur flugstjóri komið að máli við sig og kvartað undan því að rússneskar flugvélar hafi flogið nærri sér.

Samkvæmt frásögn flugstjórans hafi vélin hins vegar ekki verið innan íslenskrar lofthelgi og að minnsta kosti tvö flughæðarsvæði hafi verið á milli þeirra, að sögn Shadskiy.

Þá dregur Shadskiy í efa að flugstjórinn hafi getað séð rússneskar flugvélar tveimur kílómetrum fyrir neðan þotuna. Í fréttinni komi fram að talið sé að vél­arn­ar séu af gerðinni Tupo­lev Tu-22M. Shadskiy segir slíkar vélar hins vegar ekki hafa slíkt flugþol að það geti passað.

Engin hætta á ferðum

Hvað staðsetningarbúnað rússnesku vélanna varðar segir Shadskiy að flugvélar NATO leiki sama leik. Rússar hafi boðið NATO að flugvélar beggja aðila auðkenndu sig þegar þær væru á flugi en sendiráðsnauturinn segir að því boði hafi verið mætt með þögn.

„Það er bara áróður að segja að Rússar fljúgi án [staðsetningarbúnaðar] en NATO vélar fljúga líka án hans,“ segir hann.

Engin hætta hafi verið á ferðum og rússnesku flugvélarnar hafi verið í hefðbundnu flugi. Aðeins ein flugleið sé fyrir rússneskar flugvélar í Atlantshafi og hún liggi í kringum íslenska lofthelgi. Frá því að Shadskyi hóf störf í utanríkisþjónustunni árið 1996 segist hann ekki muna til þess að rússneskar herflugvélar hafi farið inn í íslenska lofthelgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert