Öllum þingmönnum Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna þykir koma til greina að veita Edward Snowden hæli, dvalarleyfi eða ríkisborgararétt. mbl.is sendi þingmönnum fyrirspurn um málið en ekki einn einasti þingmaður Framsóknarflokksins svaraði fyrirspurninni.
Spurning mbl.is var svohljóðandi:
„Þykir þér koma til greina að veita uppljóstraranum Edward Snowden hæli/dvalarleyfi/ríkisborgararétt hér á landi?“
Fyrirspurnin var send þingmönnum í tölvupósti 14. september sl. og ítrekanir sendar þeim sem ekki höfðu svarað 16. september og 22. september.
Allir þingmenn fyrrnefndra flokka svöruðu, fjórir af níu þingmönnum Samfylkingarinnar og sjö af nítján þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Enginn nítján þingmanna Framsóknarflokksins svaraði fyrirspurninni.
Þrír þingmenn Samfylkingar; Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson, svöruðu spurningunni játandi en Oddný G. Harðardóttir sagðist myndu „skoða það með jákvæðum huga.“
Heldur neikvæðari tón mátti greina í svörum Sjálfstæðismanna. Valgerður Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason svöruðu „nei“ en Elín Hirst svaraði með grein sem hún skrifaði 11. júní 2013 þar sem m.a. stóð: „Við Íslendingar verðum að vera raunsæir og horfast í augu við það að við höfum ekkert bolmagn til að skerast í leikinn í máli af þessari stærðargráðu.“
Svar Brynjars Þórs Níelssonar var eftirfarandi: „Ég er ekki áhugasamur um að veita Edward Snowden eða öðrum sem eru á flótta undan réttvísinni í sínum heimalöndum skjól hjá mér. Að minnsta kosti ekki þeim sem búa í réttarríki.“
Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagðist ekki getað tekið afstöðu; málið krefðist frekari skoðunar, og Sigríður Á. Andersen sagðist ekki taka afstöðu sem þingmaður. Ásmundur Friðriksson sagði að hann hefði ekki kynnt sér mál „þessa einstaklings.“
Þess ber að geta að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, setti þann fyrirvara við svar sitt að hann styddi það heilshugar að bjóða Snowden skjól hér á landi, að því gefnu að það þjónaði öryggishagsmunum hans.
Tilefni fyrirspurnar mbl.is var þríþætt; í fyrsta lagi alþjóðlegt ákall og undirskriftastöfnun Amnesty International sem miðar að því að fá Barack Obama Bandaríkjaforseta til að náða Snowden áður en hann lætur af embætti, sú staðreynd að dvalarleyfi Snowden í Rússlandi rennur út á næsta ári, og yfirlýstur áhugi Snowden á því að flytjast til Íslands eða annarra Evrópulanda fái hann ekki að snúa heim án þess að eiga yfir höfði sér áratugalangt fangelsi.
Fólk hefur afar skiptar skoðanir á Snowden, sem er ýmist lýst sem hetju eða föðurlandssvikara. Gögnin sem hann lak til fjölmiðla komu upp um gríðarlega umfangsmikla magnsöfnun upplýsinga öryggistofnana í Bandaríkjunum og á Bretlandi. Yfirvöld vestanahafs hafa borið því við að ákvörðun Snowden hafi valdið miklum skaða, sem þeim hefur þó ekki tekist að sýna fram á.
Það bar til tíðinda á dögunum þegar Washington Post birti ritstjórnargrein undir fyrirsögninni „Engin náðun fyrir Edward Snowden.“ Þar sagði m.a. að Snowden hefði lekið upplýsingum um neteftirlitskerfið PRISM, sem að mati Washington Post, var augljóslega löglegt og ógnaði ekki friðhelgi einkalífsins.
Ritstjórnargreinin hefur verið harðlega gagnrýnd, m.a. í Guardian og The Intercept. Gagnrýnin snýr ekki síst að því að sjálfur birti Snowden engin gögn, heldur afhenti þau fjölmiðlamönnum sem völdu það efni til birtingar sem þeim þótti eiga erindi við almenning. Það var nokkuð sem Snowden sagði frá upphafi að hann treysti sér ekki til að gera.
Washington Post var meðal þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem birti fréttir byggðar á gögnunum frá Snowden og þáði hin virtu Pulitzer-verðlaun fyrir. Glen Greenwald, einn blaðamanna sem hitti Snowden á laun á hótelherbergi í Hong Kong í júní 2013, segir að með ritstjórnargrein sinni hefði miðillinn unnið „fyrirlitlegt“ afrek; að verða fyrsta dagblaðið í sögu Bandaríkjanna til að kalla eftir saksókn á hendur eigin heimildarmanni.
Greenwald bendir á að það voru ritstjórar Washington Post sem ákváðu að birta umfjöllun um PRISM, og vísuðu til þeirrar umfjöllunar þegar kom að Pulitzer-verðlaununum. Greenwald viðurkennir að vissulega sé ritstjórnarsíða blaðsins aðskilin fréttaritstjórninni og fyrrnefnda tali ekki fyrir síðarnefndu, en bendir á að heiðarlegra væri að horfast í augu við það að það var ritstjórn Washington Post sem ákvað að greina frá þeim upplýsingum sem Edward Snowden hafði undir höndum.
„Ef ritstjórar ritstjórnarsíðu Post trúa því virkilega að PRISM hafi verið fullkomlega lögmætt forrit og að uppljóstranir um það þjónuðu engum almannahagsmunum, ættu þeir þá ekki að ráðast gegn eigin fréttaritstjórum fyrir að opinbera það, biðja almenning afsökunar fyrir að hafa ógnað öryggi hans, og berjast fyrir því að skila Pulitzer-verðlaununum?“ segir Greenwald.