Birtust á bílastæði og báðu um ruslapoka

Stefan og Mark við hreinsunarstarf í Ásbyrgi.
Stefan og Mark við hreinsunarstarf í Ásbyrgi. Ljósmynd/Stefan Pietsch

Tveir bandarískir ferðamenn, Mike Aulisio og Stefan Pietsch, tóku sig til í síðustu viku og hjálpuðu landvörðum í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli við hreinsunarstarf á svæðinu. Birna Heide Reynisdóttir, sérfræðingur hjá þjóðgarðinum, segir þá hafa birst á bílastæðinu við Saxhól og beðið um ruslapoka. „Ef allir fylla einn ruslapoka á ferð sinni um landið, yrði niðurstaðan frábær fyrir land og þjóð,“ segir Stefan í samtali við mbl.is.

Birna segir þá hafa gengið með pokana upp á Saxhól og að báðir hafi komið niður með hálffullan poka. Tvímenningarnir fengu þá fleiri poka með sér og héldu áfram ruslatínslunni eftir að leiðir skildi. Birna bað þá að vera í sambandi við sig og tveimur dögum síðar barst þjóðgarðinum tölvupóstur með þessum skemmtilegu myndum af þeim Stefan og Mike við ruslatínsluna.

Almennt ganga ferðamenn ágætlega um svæðið en Birna nefnir þó að ruslatínsla sé sannarlega mikilvægur hluti af vinnu landvarða. Stór hluti af daglegu eftirliti fer í að tína upp rusl, aðallega sígarettustubba og klósettpappír. 

Samkvæmt upplýsingum frá Birnu sárnaði mönnunum að sjá að fólk skildi eftir rusl í þessari náttúruperlu og vildu þeir leggja sitt af mörkum til að breyta hugsunarhætti ferðamanna. Með uppátækinu vonist þeir til að aðrir ferðamenn sjái að sér og skilji við landið í því ásigkomulagi sem þeir myndu vilja finna.

Stefan þakkar Íslendingum fyrir að opna landið og náttúruna fyrir ferðamönnum. Þetta er fyrsta ferð þeirra félaga til Íslands og auk Snæfellsness hafa þeir meðal annars komið við í Ásbyrgi og í Skaftafelli. Stefan segir að það sé áhyggjuefni að ferðamenn skuli ekki hugsa betur um umhverfið á ferð sinni um landið en hann óttast að með þessu áframhaldi muni Íslendingar enda á að loka á umferð um svæðin.

Þeir Stefan og Mike létu sér ekki nægja að koma að hreinsunarstarfi á Snæfellsnesi heldur hafa þeir haldið verkefninu áfram á ferðalaginu. Stefan telur að gefa ætti ferðamönnum ruslapoka við komuna til landsins svo allir geti hjálpast að við að halda landinu hreinu: „Ef allir fylla einn ruslapoka á ferð sinni um landið, yrði niðurstaðan frábær fyrir land og þjóð.“

Í athugasemdum við Facebook-færslu frá Umhverfisstofnun segir Mike einnig: „Við vonum að þetta veiti öðrum ferðamönnum innblástur til að vera ábyrgir og hjálpast að við að skilja við jörðina hreinni og fallegri en við fengum hana. ÁFRAM ÍSLAND!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert