Hluti Bíldshöfða í Reykjavík er nú lokaður vegna sprengingar sem varð þegar ferðmaður var að dæla metangasi á gaskút á húsbíl bensínstöðinni í Ártúni. Dælubílar frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins vinna að því að þrífa svæðið.
Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning vegna málsins á öðrum tímanum í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá Eggert Þór Kristóferssyni, forstjóra N1, var ferðamaður að dæla metani á gaskút á húsbíl á N1 Ártúni og kúturinn sprakk.
„Þetta var svaka hvellur. Allt inni í bílnum fór á hvolf og út um allt,“ sagði sjónarvottur sem mbl.is ræddi við. Hann bætti því við að maðurinn sem var að dæla hafi skorist á fæti en ekki hefðu verið sjáanleg alvarleg slys á fólki.
Upp hafi gosið megn metanlykt og svæðinu var lokað um leið.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu slösuðust þrír minniháttar þegar húsbíllinn sprakk. Mun fólkið hafa verið að dæla metani á gaskút þegar sprengingin varð. Bensínsstöðin er enn lokuð.