Meirihluti landsmanna vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR. Könnunin var gerð dagana 20.-26. september en samkvæmt henni eru 50,6% andvíg inngöngu í sambandið en 28,2% henni hlynnt.
Tæpur þriðjungur er mjög andvígir því að ganga í Evrópusambandið eða 31,8%. Frekar andvígir eru 18,7%. Á hinn bóginn eru 11,4% mjög hlynnt inngöngu í sambandið og frekar hlynntir 16,8%. Mjög andvígir því að ganga í Evrópusambandið eru þannig næstum því þrisvar sinnum fleiri en þeir sem eru mjög hlynntir inngöngu í sambandið. Athygli vekur einnig að mjög andvígir því að ganga í Evrópusambandið eru fleiri en þeir sem eru bæði mjög og frekar hlynntir inngöngu í það.
Frétt mbl.is: Evrópusambandinu hafnað í sjö ár
Sé aðeins miðað við þá sem eru annað hvort andvígir eða hlynntir inngöngu í Evrópusambandið eru rúm 64% andvíg henni en tæp 36% hlynnt. Síðustu kannanir hafa verið á svipuðu róli samkvæmt upplýsingum á vefsíðu MMR. Meirihluti hefur verið á móti inngöngu í Evrópusambandið í öllum könnunum sem gerðar hafa verið undanfarin rúm sjö ár eða frá því í júlí árið 2009.
Könnunin var sem fyrr segir gerð dagana 20.-26. september. Um netkönnun var að ræða og fjöldi svarenda 985. Svarhlutfall var 90,6%.