Krefjast afgreiðslu LÍN-frumvarpsins fyrir kosningar

Helstu námsmannahreyfingar landsins styðja LÍN-frumvarp Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra.
Helstu námsmannahreyfingar landsins styðja LÍN-frumvarp Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Formenn helstu stúdentahreyfinga landsins krefja þingmenn um afgreiðslu á LÍN-frumvarpinu svokallaða og munu ekki una því að bíða til næsta kjörtímabils eftir endurbótum á námsaðstoðarkerfinu. Hreyfingarnar segja frumvarpið fela í sér gífurlega kjarabót fyrir nemendur landsins og krefjast þess að frumvarpið verði tekið fyrir.

Þetta kemur fram í áskorun Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Félags Stúdenta við Háskólann á Akureyri, Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík og Nemendasambands Tækniskólans (NST) sem send var fjölmiðlum landsins í dag.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur lagt til að námsaðstoð frá LÍN verði fyrirframgreidd eftir að gagnrýnisraddir þess efnis bárust frá stúdentahreyfingum landsins. Leggur nefndin einnig til að vextir verði að hámarki 2,5 prósent að viðbættu hálfs prósents álags. 

Verði frumvarp menntamálaráðherra samþykkt munu nemendur fá námsstyrk að fjárhæð …
Verði frumvarp menntamálaráðherra samþykkt munu nemendur fá námsstyrk að fjárhæð 65 þúsund krónur á mánuði. mbl.is/Ernir

Há­marks­lán­veit­ing­ar Lána­sjóðs ís­lenskra náms­manna (LÍN) til ein­stakra náms­manna munu nema 15 millj­ón­um verði frumvarpið samþykkt. Hver námsmaður mun til viðbót­ar geta fengið tæp­lega þriggja millj­óna styrk, eða 65 þúsund krónur á mánuði í alls 45 mánuði. Sam­hliða því verður fallið frá kvöðum um há­marks­lán á ákveðnu náms­stigi.

Frétt mbl.is: Leggja til breytingar á LÍN-frumvarpi

„Við krefjumst þess að málið fari á dagskrá og verði tekið fyrir í 2. umræðu sem fyrst,“ segir í áskorun stúdenta. „Við erum sammála um að þær breytingar sem allsherjar- og menntamálanefnd leggur til að gerðar verði á frumvarpinu séu jákvæðar og að frumvarpið sé í heild sinni gífurleg kjarabót fyrir stúdenta.“

Skora á stjórnarandstöðuna að leggja kosningaslaginn til hliðar

Í áskorun skora stúdentahreyfingarnar á þingmenn að afgreiða frumvarpið fyrir …
Í áskorun skora stúdentahreyfingarnar á þingmenn að afgreiða frumvarpið fyrir kosningar og biðla til stjórnarandstöðuflokkanna að leggja kosningabaráttuna til hliðar. mbl.is/Styrmir Kári

Í áskoruninni skora hreyfingarnar sérstaklega á stjórnarandstöðuflokkana á Alþingi og biðla til þeirra að leggja kosningaslaginn til hliðar og „hlusta á stúdenta, sem eru langþreyttir á því að vera notaðir í pólitískum leikjum á milli stjórnmálaflokka.“

„Ekki er hægt að horfa fram hjá því að þetta frumvarp er risastórt skref í átt að því námsaðstoðarkerfi sem við viljum sjá á Íslandi í framtíðinni, en það hefur í för með sér þau atriði sem stúdentar hafa lengi barist fyrir, til að mynda fyrirframgreiðslur, beina námsstyrki og 100% framfærslu,“ segir í áskoruninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert