Fimm barna móðir var í gær dæmd í 18 mánaða fangelsi í héraðsdómi fyrir að hafa ítrekað beitt börn sín andlegum og líkamlegum refsingum, haft í hótunum við þau, ógnað þeim og sýnt þeim vanvirðandi háttsemi. Þá hafi hún sýnt börnunum yfirgang, ruddalegt athæfi, sært þau og móðgað. Var konan einnig dæmd til að greiða börnunum fjórar milljónir í skaðabætur.
Börnin eru fædd á árunum 2002 til 2013, en brotin sem dómurinn nær til áttu sér stað á árunum 2010 til 2015.
Upphaf málsins má rekja til beiðni barnaverndar Reykjavíkur um lögreglurannsókn í apríl á síðasta ári. Var þá talið að um andlegt og líkamlegt ofbeldi væri að ræða sem virtist hafa verið ítrekað og viðvarandi í langan tíma. Kom fram að málefni barnanna hefðu verið í vinnslu með hléum frá árinu 2005. „Á þeim tíma hafi borist tugir tilkynninga um ofbeldi móður í garð barnanna auk heimilisofbeldis sem börnin yrðu vitni að. Börnin hafi staðfest líkamlegt ofbeldi af hálfu ákærðu árið 2010,“ eins og segir í dómnum.
Börnin fóru í kjölfarið á Vistheimili barna og var unnið með móðurinni að því að bæta uppeldisaðferðir hennar. Fóru svo börnin á ný í umsjá móðurinnar. Síðar bárust tilkynningar um vanrækslu, heimilisofbeldi og voru áhyggjur af stöðu barnanna á heimili móðurnnar. Segir í dómnum að komið hafi upp áhyggjur vegna hegðunar barnanna, sem hafi verið hömlulaus og ofbeldisfull
Í málinu er meðal annars vísað til þess að eitt barnið hafi lýst því að það væri hrætt við móðurina, en hún á meðal annars að hafa sagt að hún vonaði að barnið myndi drukkna. Þá sagði barnið að móðirin, ásamt vinkonu sinni hafi slegið systkinin og börn vinkonunnar með beltum.
Þá hafi önnur börn lýst ofbeldi konunnar í viðtölum við sálfræðing, en þar kom meðal annars fram að konan hafi hótað að lemja eitt barnið ef það kæmi aftur upp í rúm til hennar. Þá hafi konan tekið þriðja barnið og ætlað að setja það upp sitt rúm, en endað með að taka barnið á annarri hendi og hent því svo það skall með höfuðið í vegginn.
Konan var í fyrra svipt forsjá barna sinna samkvæmt dómi, en þeim dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Konan neitaði sök fyrir dómi, en hún var ekki viðstödd aðalmeðferð málsins. Kom þar fram að hún væri flutt af landi brott.
Í niðurstöðu dómsins er vísað til viðtals við fyrrverandi eiginmann konunnar og föður barnanna fimm. Sagði hann þar að það væri kraftaverk að ekkert barnanna væri dáið vegna ofbeldis konunnar. Lýsti hann ofbeldinu sem viðvarandi frá því að yngsta barnið var lítið en hafi svo stigmagnast eftir því sem börnin urðu fleiri. Sagði hann þau allavega vera beitt ofbeldi annan hvern dag. Staðfesti faðirinn þetta í skýrslutöku hjá lögreglu. Fyrir dómi neitaði hann aftur á móti því að konan hefði beitt börnin ofbeldi. Taldi dómurinn breyttan framburð hans ótrúverðugan.
Segir í dómnum að sannað þyki að konan hafi sýnt börnum sínum vanvirðandi háttsemi frá 2010 til 2015. Þá sé sannað að hún hafi sparkað, slegið, togað í hár, slegið utan í veggi, tekið kverkataki og kastað hlutum í þrjú barnanna. Þá er hún sakfelld fyrir að hafa kallað börnin illum nöfnum og að hafa tekið yngstu börnin tvö og hrist þau og hent þeim í rúm eða sófa þegar hún var að svæfa þau.