Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, vakti í dag máls á frumvarpi til að heimila lagningu raflína til stóriðju á Bakka, og sagði margar áhyggjur hafa vaknað vegna málsins, meðal annars um að frumvarpið stæðist ekki stjórnarskrá og alþjóðlega samninga sem Ísland sé skuldbundið til að uppfylla.
Í óundirbúnum fyrirspurnatíma spurði hún ráðherra hvort hann teldi að iðnaðarráðuneytið hefði skilað fullnægjandi mati á því hvort frumvarpið stæðist allar þær kröfur sem til þess séu gerðar.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra sagði að við undirbúning málsins hefði verið fengið utanaðkomandi lögfræðiálit frá lögfræðistofunni Logos, þar sem hún hefði verið beðin sérstaklega um að fara yfir alþjóðlegar skuldbindingar í Árósarsamningnum og EES-samningnum.
„Hér er um að ræða lagasetningu þar sem þjóðkjörnir fulltrúar eiga sæti á alþingi og standa að þessari löggjöf,“ sagði Ragnheiður og benti á að Árósarsamningurinn ætti ekki við í slíkum tilfellum.
Þá sagði hún Logos einnig hafa litið til stjórnarskrárinnar og komist að þeirri niðurstöðu að frumvarpið bryti ekki í bága við ákvæði hennar.
Svandís nefndi þá að í ljós hefði komið, að áætlað væri að úrskurður nefndar um leyfi til framkvæmdannna liggi fyrir í kringum 10.-14. október. og „hvort við ættum ekki að bíða með þessa löggjöf þar til úr því hefur verið leyst.“
Ragnheiður sagði það rétt að niðurstöður gætu legið fyrir í vikunni 10.-14. október, en á því gætu samt orðið tafir. Þá hefði áður ekki litið út fyrir að niðurstöður lægju fyrir svo fljótt. Gríðarlegir hagsmunir væru fólgnir í fljótri afgreiðslu málsins.