Hvað mega kennarar segja í skólanum?

Siðmennt stendur fyrir málþingi um tjáningarfrelsi.
Siðmennt stendur fyrir málþingi um tjáningarfrelsi.

Siðmennt stendur fyrir málþingi um tjáningarfrelsið á KEA hóteli á Akureyri á morgun. Tilefnið er umrót í bæjarfélaginu eftir að Snorra Óskarssyni, sem jafnan er kenndur við Betel, var vikið úr starfi kennara vegna skoðana sinna á samkynhneigð sem hann setti fram á persónulegu bloggi sínu.

Innanríkisráðuneytið úrskurðaði uppsögnina ólöglega og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti í febrúar síðastliðnum.

Þrír framsögumenn verða á málþingi Siðmenntar um tjáningarfrelsið sem fram fer á morgun. Það eru þau Jóhann Björnsson, heimspekingur, kennari og formaður Siðmenntar, Sigrún Sveinbjörnsdóttir, prófessor í sálfræði við félags- og hugvísindasvið Háskólans á Akureyri, og Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Erindi Sigurðar á málþinginu ber yfirskriftina: Tjáningarfrelsi og ábyrgð fagstétta. „Tilefnið er dómsmál Snorra. Ég mun ekkert tjá mig um það en það er hins vegar munur á lagalegum og borgaralegum rétti okkar til þess að tjá skoðanir, og síðan siðferðislegri ábyrgð okkar á því sem við segjum og gerum,“ segir Sigurður. Hann telur að um leið og gengið er til liðs við einhverja fagstétt, líkt og á t.a.m. við um kennara, gangist maður við þeirri siðferðislegu ábyrgð sem starfinu fylgi. „Þar sinnir maður ákveðnu samfélagslegu hlutverki og skilningur manns á því er ekki einkamál. Fólk gengur inn í ákveðinn samfélagslegan veruleika og þarf að geta hagað orðum og gjörðum sínum innan þess ramma óháð persónulegum skoðunum. Maður hefur sem borgari frelsi til að vera ekki kennari, eða læknir, eða lögreglumaður o.s.frv, eða hvaða starf það er sem skilgreinir þína persónulegu ábyrgð,“ segir Sigurður. Af þeim sökum segir hann mál Snorra koma sérstaklega til álita. „Þú getur tjáð þig með þessum hætti og hefur rétt til þess sem borgari, rétt sem varinn er í stjórnarskrá. En engu að síður er það ekki siðferðislega rétt hjá kennara að tjá sig með þessum hætti. Fagleg siðferðisleg ábyrgð kennarans getur því stangast á við það sem er stjórnarskrárvarinn réttur,“ segir Sigurður.

Ekki á herðum hvers og eins

Hann telur að heimildir kennara til þess að skilgreina eigin ábyrgð og hlutverk sé ekki á herðum hvers og eins. Samfélag kennarastéttar sé t.a.m. bundið af ákveðnu siðferði.

Spurður hvort kennurum sé ekki þröngur stakkur búinn með því að gangast undir slíkt siðferði telur Sigurður svo ekki vera. „Kennarar eru með siðareglur sem eru ákveðinn samnefnari sem búinn er til í sátt innan Kennarasambandsins. Þær eru opinberar, til umræðu og koma öllum við og þær getur hver sem er gagnrýnt,“ segir Sigurður. Hann bendir á að líkt og kennarar fari læknar eftir ákveðnum siðareglum. „Þær koma í veg fyrir að læknir geti sagt hvað sem er við sjúkling sinn. Eins má nefna að fjölmiðlamenn eru bundnir af sínu fagsiðferði, sem kveður á um ákveðin vinnubrögð og ákveðið vinnusiðferði eins og virðingu fyrir staðreyndum,“ segir Sigurður.

Skoðanir samræmist starfinu

Hann segir að ekki megi þó túlka orð hans á þann hátt að kennarar séu að einhverju leyti bundnir og geti ekki sett skoðanir sínar fram. Til þess hafi þeir borgaralegan rétt. „En í málþinginu er frekar sjónum beint að því hver möguleg skaðleg áhrif geta verið með því að tjá sig með einhverjum ákveðnum hætti við ákveðnar aðstæður. Það er enginn að segja að kennari megi ekki hafa skoðun, frelsið er allt of heilagt til þess, en það eru samt takmörk fyrir því hvaða skoðanir eru röklega samræmanlegar því að vera kennari. Ef við ímyndum okkur t.a.m. að kennari hafi þá skoðun að menntun sé í raun böl og réttast væri að berjast gegn menntun, þá er hann kominn í röklega mótsögn við undirstöðu fagsins. Því eru takmörk fyrir innihaldi skoðana sem kennari getur haft,“ segir Sigurður. Hann segir að málþingið varði alla borgara og viðfangsefni tjáningarfrelsis breytist með hverri þeirri kynslóð sem fram kemur. „Tímarnir breytast og áskoranir um leið,“ segir Sigurður.

Kennari undirgengst ákveðnar siðareglur þótt hann hafi stjórnarskrárbundinn rétt til …
Kennari undirgengst ákveðnar siðareglur þótt hann hafi stjórnarskrárbundinn rétt til frjálsrar tjáningar að sögn Sigurðar Kristinssonar. Hann telur takmörk á innihaldi skoðana sem kennari getur haft í starfi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert