„Þetta hafa nú verið skjálftar oft áður í Kötlu og það er best að vera ekkert að mála skrattann á vegginn,“ segir Jóhannes Kristjánsson, eigandi hótelsins á Höfðabrekku, í samtali við mbl.is. Höfðabrekka stendur skammt frá Múlakvísl en Jóhannes telur rétt að leyfa hlutum að þróast áður en gert er frekara mál úr því.
„Við höfum bara orðið vör við þetta í fréttum,“ segir Jóhannes en hann kveðst ekki hafa fundið fyrir neinum jarðskjálftum né orðið var við breytingar á vatni í Múlakvísl. „Við teljum að við séum ekki í neinni stórri hættu hérna,“ segir Jóhannes sem er sallarólegur yfir ástandinu og telur sig, aðra ábúendur og gesti og starfsfólk hótelsins vera í góðu skjóli á Höfðabrekku. „Þetta er ekki orðin nein vá eins og er.“
Sonur Jóhannesar, Björgvin Jóhannesson, er hótelstjóri á Hótel Höfðabrekku. Hann segir skjálftavirknina í Kötlu ekki hafa haft nein áhrif á starfsemi hótelsins og segir gesti hafa lítið sem ekkert spurt út í ástandið.
„Við höfum ekki farið í það að láta þá eitthvað vita af þessu ennþá, það kannski bara skapar meira vesen heldur en það leysir,“ segir Jóhannes sem vill ekki ala á óþarfa ótta við eitthvað sem óvíst er að verði. Hótelið er svo gott sem fullbókað en það telur um 100 herbergi.
„Við erum búin að fara yfir það með starfsfólkinu hvað á að gera ef eitthvað fer af stað,“ útskýrir Jóhannes en þeim ber að tilkynna sig til fjöldahjálparstöðvarinnar í Vík verði viðbragðsáætlun virkjuð.