Landssamband veiðifélaga hefur farið fram á það við bæði sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra að fram fari óháð opinber rannsókn á því hvers vegna og hvernig regnbogasilungur hafi sloppið í miklu magni á Vestfjörðum.
Það hafi leitt til þess að silungurinn hefur veiðist um allt norðan- og vestanvert land síðustu vikur og mánuði.
„Staðfest hefur verið að regnbogasilungur hefur veiðst í ám við Húnaflóa, í ám á Vestfjörðum og allt suður til Faxaflóa, í Vatnsdalsá, Haffjarðará, Hítará á Mýrum auk fleiri vatnasvæða og það í nokkru magni,“ segir í tilkynningu frá Landsambandi veiðifélaga.
„Engu að síður hefur ekkert fiskeldisfyrirtæki tilkynnt um slysasleppingar úr sjókvíaeldi sínu, sem fyrirtækjunum er þó skylt að gera lögum samkvæmt.“
Í tilkynningunni er þess krafist að stjórnvöld láti fara fram óháða og opinbera rannsókn á málinu og jafnframt að skoðað verði hvort eftirlit með starfsemi sjókvíaeldisfyrirtækja sé fullnægjandi og standist kröfur.
„Ljóst er að um umhverfisslys er að ræða og útbreiðsla regnbogasilungs um allt norðan – og vestanvert land er einungis fyrirboði annars umhverfisslyss sem verði með vaxandi laxeldi í sjókvíum. Slíkt umhverfisslys er óafturkræft og því mikilvægt að tekið sé í taumana strax.“