Davíð Þór Jónsson hefur komið víða við um ævina en hefur nú fundið köllun sína. Hann er nýráðinn sóknarprestur í Laugarneskirkju og tekur þangað með sér marga lífsreynsluna. Davíð ræðir um æskuna, grínið og glímuna við Bakkus, sem tók af honum völdin um stund. Hann hlakkar til að takast á við nýja starfið og talar opinskátt um lífið, trúna og stöðu íslensku kirkjunnar.
Oftar en ekki hefur hann verið á milli tannanna á fólki, enda óhræddur við að segja sínar skoðanir þótt þær eigi það til að ögra náunganum. Davíð hefur nú fundið köllun sína sem prestur og er sáttur við það hlutskipti sem hann valdi sér sjálfur. Við setjumst niður saman á skrifstofu hans í Laugarneskirkju á öðrum vinnudegi hans. Hann segist spenntur fyrir komandi ævintýri með nýjum söfnuði og nýju starfsfólki. Yfir kaffinu spjöllum við um lífið, sem hefur tekið ýmsar beygjur og snúninga en að lokum leitt hann þangað þar sem hann er núna.
Davíð hóf guðfræðinám eftir að hafa reynt fyrir sér þrisvar í inntökupróf í leiklistarskólanum. „Ég ætlaði alltaf að verða leikari, ég ákvað það átján ára gamall. En í þrjú ár í röð lenti ég í 16 manna hópi, í lokaúrtakinu en komst ekki inn,“ segir hann.
Davíð stóð þarna á tímamótum; stóð í skilnaði við fyrstu konu sína, sem hann átti tvö börn með. „Þegar ég var búinn að gefa þann draum upp á bátinn að leika opnaðist tækifæri. Og ég tók þá ákvörðun að segja mig úr guðfræðinni og gerast skemmtikraftur,“ segir hann.
Hvað er heillandi við að standa á sviði og skemmta fólki?
„Góð spurning! Það bara er það. Kannski vill maður vera vinsæll. Við Steinn vorum báðir lagðir í einelti í grunnskóla, vorum hafðir útundan og þóttum ekki flottastir. Við kannski kynntumst í gegnum það að vera útskúfuð „nobody“. Við lágum vel við höggi. Kannski að einhverju leyti blundar það í manni að vilja vera dáður af því að maður þekkir svo innilega vel hvernig er að vera það ekki. En svo er það líka annað, þetta er rosalega erfitt og það er nú bara þannig að því fylgir miklu meiri vellíðan að gera eitthvað erfitt vel en að gera eitthvað auðvelt vel. Og þegar maður stendur uppi á sviði með stóran sal fyrir framan sig, með sitt eigið efni og með salinn í lófanum, upplifir maður sig stóran og sterkan.“
Davíð segir að skemmtibransalífinu hafi fylgt mikið djamm.„Við túruðum um landið og það var slegist um okkur og við höfðum ágætar tekjur. Vorum bara rokkstjörnur og nýttum okkur það. Drukkum mikið brennivín,“ segir hann, en við tók langt tímabil þar sem drykkjan jókst með tilheyrandi vanlíðan. „Níutíuogsjö er ég að vinna við Gettu betur og þar var ung stúlka stigavörður sem heillaði mig upp úr skónum mjög fljótt. Og ég átti því láni að fagna að ég náði að heilla hana á móti. Við byrjuðum saman sem par og það skrúfaði niður þennan lifnað og við fórum að búa saman. Hún heitir Katrín Jakobsdóttir og er í dag formaður VG,“ segir hann og entist sambandið í sjö ár en endaði svo árið 2004. „Það hangir í beinu samhengi því þó að ég hafi skrúfað niður rokkstjörnulifnaðinn var ég samt fársjúkur alkóhólisti og neitaði að horfast í augu við það og hún gafst upp á því.“
„Í kjölfarið á sambandsslitunum tók við eitt ár af helvíti sem endaði í tárum inni á Vogi. Ég var bara búinn á því. Og síðan þá hef ég verið að byggja upp líf mitt á nýjum forsendum,“ segir hann. „Þarna er ég 41 árs með tvö misheppnuð sambönd að baki, þrjú börn á unglingsaldri og hafði enga stjórn á lífi mínu og leið hörmulega. Var bara búinn að gefast upp. Ég orti vísu sem ég hef verið að rifja upp. Hún er svona: „Ætli dugi ekki best til að drepa sig, að drekka sig rólega í hel, ég get skoðað með haustinu að hengja mig, ef hitt gengur ekki vel.“ Dulvitað hafði ég þarna í þessari gamanvísu dottið niður á það sem ég í raun og veru var ómeðvitað að reyna að gera síðasta árið mitt í neyslu. Ég var búinn að gefast upp að reyna að hafa stjórn á lífi mínu og vildi enda þetta,“ segir hann, en síðasta árið var hann nánast hættur í vinnu en hafði þá verið að vinna við þýðingar. „Síðasta árið í neyslu var þetta lóðrétt niður á við.“
Þegar botninum var náð fór Davíð inn á Vog og fór að vinna í sporunum. „Lausnin var í því fólgin að reka sjálfan sig sem framkvæmdastjóra í lífi sínu og ráða sinn æðri mátt í það djobb og gerast sjálfur bara starfsmaður á lager! Ef þér er sagt að sækja eitthvað inn á lager geturðu ekki haft neinar skoðanir á því, þú bara gerir eins og þér er sagt.“
Og gekk það vel?
„Það gekk. Mér fannst það rosalega gott því ég tók langan tíma í að hugsa ekki, taka ekki ákvarðanir. Maður sem hefur dælt eitri í heilann á sér í 10-15 ár og biður guð að taka það frá sér fer ekkert að hugsa skýrt og taka góðar ákvarðanir daginn eftir. Þannig að ég tók mér tvö ár þar sem ég lifði bara einn dag í einu og tók engar ákvarðanir heldur tók leiðsögn,“ útskýrir hann. Á þessum tíma kynntist hann núverandi konu sinni, Þórunni Grétu Sigurðardóttur, og eftir að hafa ráðfært sig við hana ákvað hann að snúa tilbaka í guðfræðina.
„Ég fann að guðfræðin var farin að kalla á mig aftur, ég saknaði hennar rosalega mikið og 2007 fer ég aftur. Þannig að með fullri vinnu klára ég hana á tveimur árum og hellti mér svo í kandídatsnámið,“ segir Davíð, sem vann þá sem þýðandi á teiknimyndum og leikritum.
Davíð segist aldrei hafa misst trúna í gegnum alla erfiðleikana. „Ég hef alltaf fundið það og verið sannfærður um að það sé til eitthvað æðra mannlegum mætti, að það sé til gott og illt. Ég hef alltaf verið leitandi og andlega þenkjandi. Ég hef alltaf verið trúaður. En ég missti traustið á Guði. Hvernig getur Guð verið almáttugur og algóður og horft á heiminn og skipt sér ekki af. Annaðhvort er hann siðblint villidýr eða hann er fullkomlega vanmáttugur.“
Hvernig útskýrirðu það?
„Ég get ekki útskýrt það. Eftir að ég tók þá ákvörðun að láta líf mitt lúta handleiðslu æðri máttar er reynsla mín að líf mitt tók U-beygju. Þá trúi ég að það sé hægt að vera í persónulegu vitundarsambandi við æðri mátt. Það er mín reynsla. Og ég segi það stundum að Guð vill ekki að það sé allt í drasli heima hjá þér, en hann kemur ekki heim til þín og tekur til. En hann hugsanlega getur gefið þér kraft til að taka til ef þú biður hann um það! Guð tekur ekkert brennivínið úr lífi þínu en getur, ef þú nógu auðmjúklega felur líf þitt í hendur honum, gefið þér styrk til að vera andlega heilbrigður í heimi sem er fullur af brennivíni,“ segir Davíð.
Talið víkur að kirkjunni sem stofnun. „Það er munur á því að trúa á Guð og trúa á kirkjuna, kirkjan sem stofnun er sannarlega ekki yfir gagnrýni hafin frekar en aðrar uppfinningar mannanna. Hún sem tól getur verið verkfæri til góðs í samfélaginu. Hún er vissulega griðastaður og skjól og opið hús fyrir bæn og tilbeiðslu en hún hefur líka rödd, hún hefur spámannlegt hlutverk. Það er skylda hennar að þegja ekki um óréttlæti,“ segir Davíð.
Hvað með að kirkjan sé undir ríkinu, myndir þú vilja breyta því?
„Já, ég talaði um það í mörg ár að það þyrfti algjörlega að aðskilja ríki og kirkju og sumir segja að það hafi verið gert. En á meðan prestar eru ekki launþegar kirkjunnar heldur ríkissjóðs hljómar slíkt tal ankannalega,“ segir Davíð. „Fjárhagshliðin er þannig að kirkjan á gríðarlega miklar eigur sem gætu alveg staðið undir rekstri hennar ef vel væri á haldið en síðan er annað mál að allar þessar eigur eru í höndum ríkisins og ríkið borgar af þeim arð til kirkjunnar í formi launa til presta,“ segir Davíð og útskýrir að hann sé mikill aðdáandi Barmen-yfirlýsingarinnar, sem er yfirlýsing sem lúterskir guðfræðingar í Þýskalandi undirrituðu á dögum Weimar-lýðveldisins. „Hún gengur út á það að stjórnvöld megi ekki hafa nein áhrif á boðun kirkjunnar. Nú er ég ekki að segja að íslensk stjórnvöld hafi áhrif á boðun kirkjunnar en þegar stjórnmálamenn ganga á fund biskups til að biðja hann um að reka starfsmann kirkjunnar hlýtur að fara um mann. Það er erfitt fyrir kirkju að hafa hátt um óréttlæti þegar kirkjan er fjárhagslega háð þeim sem standa fyrir óréttlætinu.“
Hvaða máls ertu að vísa til?
„Til dæmis mál með hælisleitendur, hvernig komið er fram við þá. Það er erfitt fyrir kirkjuna að koma fram með gagnrýni á framkomu hins opinbera við hælisleitendur á Íslandi ef kirkjan er orðin svona fjárhagslega háð hinu opinbera. Brynjar Níelsson lét hafa það eftir sér að það væri ekki hlutverk kirkjunnar að gagnrýna stjórnvöld og ef hún ætlaði að halda því áfram þyrfti aðskilnað ríkis og kirkju og ég er alveg hjartanlega sammála honum, þarna kemst ekki hnífurinn á milli okkar. Það er hlutverk kirkjunnar að gagnrýna stjórnvöld og til þess að hún hafi frelsi til þess er nauðsynlegt að aðskilja þetta. Þú glefsar ekki í höndina sem fóðrar þig.“
Ertu ekki hræddur að segja skoðun þína á þessu máli?
„Nei. Fagnaðarerindið í tveimur orðum er þetta: Verið óhræddir. Ég ætla ekki að þykjast ekki þekkja óttann í mínu lífi. Það er margt sem ég óttast,“ segir hann.
Hvað óttastu?
„Ég óttast uppgang þjóðernishyggju. Ég óttast það sem ég er að sjá í stjórnmálaþróun bæði í Bandaríkjunum og meginlandi Evrópu. Ég óttast forheimsku og óttavæðingu. Í vaxandi útlendingahatri og íslamsfóbíu,“ segir hann. „Mér finnst voðalega skrítið að fólk sem er að koma hingað og þráir ekkert annað en að vera nýtir borgarar sé sent dýrum dómum úr landi, hugsanlega út í opinn dauðann. Á sama tíma og við erum að flytja inn vinnuafl. Það er þetta sem ég óttast. Óttinn nærir hatrið. Þetta er stóra ógnin okkar núna. Þess vegna þurfum við að hafa hugrekki til þess að sigrast á óttanum. Það að trúa er ekki að efast ekki. Það að trúa er að horfast í augu við efann en að hafa hugrekki til að láta hann ekki ráða ferðinni.“