Henti gamla lífinu í ruslið

Davíð Þór Jónsson er nýráðinn sóknarprestur í Laugarneskirkju.
Davíð Þór Jónsson er nýráðinn sóknarprestur í Laugarneskirkju. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Davíð Þór Jóns­son hef­ur komið víða við um æv­ina en hef­ur nú fundið köll­un sína. Hann er nýráðinn sókn­ar­prest­ur í Laug­ar­nes­kirkju og tek­ur þangað með sér marga lífs­reynsl­una. Davíð ræðir um æsk­una, grínið og glím­una við Bakkus, sem tók af hon­um völd­in um stund. Hann hlakk­ar til að tak­ast á við nýja starfið og tal­ar op­in­skátt um lífið, trúna og stöðu ís­lensku kirkj­unn­ar. 

Oft­ar en ekki hef­ur hann verið á milli tann­anna á fólki, enda óhrædd­ur við að segja sín­ar skoðanir þótt þær eigi það til að ögra ná­ung­an­um. Davíð hef­ur nú fundið köll­un sína sem prest­ur og er sátt­ur við það hlut­skipti sem hann valdi sér sjálf­ur. Við setj­umst niður sam­an á skrif­stofu hans í Laug­ar­nes­kirkju á öðrum vinnu­degi hans. Hann seg­ist spennt­ur fyr­ir kom­andi æv­in­týri með nýj­um söfnuði og nýju starfs­fólki. Yfir kaff­inu spjöll­um við um lífið, sem hef­ur tekið ýms­ar beygj­ur og snún­inga en að lok­um leitt hann þangað þar sem hann er núna.

Davíð hóf guðfræðinám eft­ir að hafa reynt fyr­ir sér þris­var í inn­töku­próf í leik­list­ar­skól­an­um. „Ég ætlaði alltaf að verða leik­ari, ég ákvað það átján ára gam­all. En í þrjú ár í röð lenti ég í 16 manna hópi, í loka­úr­tak­inu en komst ekki inn,“ seg­ir hann.

Davíð Þór Jónsson.
Davíð Þór Jóns­son. mbl.is/Á​sdís Ásgeirs­dótt­ir

Davíð stóð þarna á tíma­mót­um; stóð í skilnaði við fyrstu konu sína, sem hann átti tvö börn með. „Þegar ég var bú­inn að gefa þann draum upp á bát­inn að leika opnaðist tæki­færi. Og ég tók þá ákvörðun að segja mig úr guðfræðinni og ger­ast skemmtikraft­ur,“ seg­ir hann.

Hvað er heill­andi við að standa á sviði og skemmta fólki?

„Góð spurn­ing! Það bara er það. Kannski vill maður vera vin­sæll. Við Steinn vor­um báðir lagðir í einelti í grunn­skóla, vor­um hafðir útund­an og þótt­um ekki flott­ast­ir. Við kannski kynnt­umst í gegn­um það að vera út­skúfuð „no­bo­dy“. Við lág­um vel við höggi. Kannski að ein­hverju leyti blund­ar það í manni að vilja vera dáður af því að maður þekk­ir svo inni­lega vel hvernig er að vera það ekki. En svo er það líka annað, þetta er rosa­lega erfitt og það er nú bara þannig að því fylg­ir miklu meiri vellíðan að gera eitt­hvað erfitt vel en að gera eitt­hvað auðvelt vel. Og þegar maður stend­ur uppi á sviði með stór­an sal fyr­ir fram­an sig, með sitt eigið efni og með sal­inn í lóf­an­um, upp­lif­ir maður sig stór­an og sterk­an.“

Davíð Þór Jónsson fyrir nokkrum árum.
Davíð Þór Jóns­son fyr­ir nokkr­um árum. mbl.is/​Sverr­ir Vil­helms­son

Rokk­stjörn­ur í brenni­víni

Davíð seg­ir að skemmti­bransa­líf­inu hafi fylgt mikið djamm.„Við túruðum um landið og það var sleg­ist um okk­ur og við höfðum ágæt­ar tekj­ur. Vor­um bara rokk­stjörn­ur og nýtt­um okk­ur það. Drukk­um mikið brenni­vín,“ seg­ir hann, en við tók langt tíma­bil þar sem drykkj­an jókst með til­heyr­andi van­líðan. „Níu­tíu­og­sjö er ég að vinna við Gettu bet­ur og þar var ung stúlka stiga­vörður sem heillaði mig upp úr skón­um mjög fljótt. Og ég átti því láni að fagna að ég náði að heilla hana á móti. Við byrjuðum sam­an sem par og það skrúfaði niður þenn­an lifnað og við fór­um að búa sam­an. Hún heit­ir Katrín Jak­obs­dótt­ir og er í dag formaður VG,“ seg­ir hann og ent­ist sam­bandið í sjö ár en endaði svo árið 2004. „Það hang­ir í beinu sam­hengi því þó að ég hafi skrúfað niður rokk­stjörnu­lifnaðinn var ég samt fár­sjúk­ur alkó­hólisti og neitaði að horf­ast í augu við það og hún gafst upp á því.“

Að drekka sig ró­lega í hel

„Í kjöl­farið á sam­bands­slit­un­um tók við eitt ár af hel­víti sem endaði í tár­um inni á Vogi. Ég var bara bú­inn á því. Og síðan þá hef ég verið að byggja upp líf mitt á nýj­um for­send­um,“ seg­ir hann. „Þarna er ég 41 árs með tvö mis­heppnuð sam­bönd að baki, þrjú börn á ung­lings­aldri og hafði enga stjórn á lífi mínu og leið hörmu­lega. Var bara bú­inn að gef­ast upp. Ég orti vísu sem ég hef verið að rifja upp. Hún er svona: „Ætli dugi ekki best til að drepa sig, að drekka sig ró­lega í hel, ég get skoðað með haust­inu að hengja mig, ef hitt geng­ur ekki vel.“ Dul­vitað hafði ég þarna í þess­ari gaman­vísu dottið niður á það sem ég í raun og veru var ómeðvitað að reyna að gera síðasta árið mitt í neyslu. Ég var bú­inn að gef­ast upp að reyna að hafa stjórn á lífi mínu og vildi enda þetta,“ seg­ir hann, en síðasta árið var hann nán­ast hætt­ur í vinnu en hafði þá verið að vinna við þýðing­ar. „Síðasta árið í neyslu var þetta lóðrétt niður á við.“

Davíð Þór Jónsson og Ævar Örn Jósepsson.
Davíð Þór Jóns­son og Ævar Örn Jóseps­son. mbl.is/​Krist­inn Ingvars­son

Að treysta á æðri mátt

Þegar botn­in­um var náð fór Davíð inn á Vog og fór að vinna í spor­un­um. „Lausn­in var í því fólg­in að reka sjálf­an sig sem fram­kvæmda­stjóra í lífi sínu og ráða sinn æðri mátt í það djobb og ger­ast sjálf­ur bara starfsmaður á lag­er! Ef þér er sagt að sækja eitt­hvað inn á lag­er get­urðu ekki haft nein­ar skoðanir á því, þú bara ger­ir eins og þér er sagt.“

Og gekk það vel?

 „Það gekk. Mér fannst það rosa­lega gott því ég tók lang­an tíma í að hugsa ekki, taka ekki ákv­arðanir. Maður sem hef­ur dælt eitri í heil­ann á sér í 10-15 ár og biður guð að taka það frá sér fer ekk­ert að hugsa skýrt og taka góðar ákv­arðanir dag­inn eft­ir. Þannig að ég tók mér tvö ár þar sem ég lifði bara einn dag í einu og tók eng­ar ákv­arðanir held­ur tók leiðsögn,“ út­skýr­ir hann. Á þess­um tíma kynnt­ist hann nú­ver­andi konu sinni, Þór­unni Grétu Sig­urðardótt­ur, og eft­ir að hafa ráðfært sig við hana ákvað hann að snúa til­baka í guðfræðina.

Radíusbræður Steinn Ármann Magnússon og Davíð Þór Jónsson.
Radíus­bræður Steinn Ármann Magnús­son og Davíð Þór Jóns­son.

„Ég fann að guðfræðin var far­in að kalla á mig aft­ur, ég saknaði henn­ar rosa­lega mikið og 2007 fer ég aft­ur. Þannig að með fullri vinnu klára ég hana á tveim­ur árum og hellti mér svo í kandí­dats­námið,“ seg­ir Davíð, sem vann þá sem þýðandi á teikni­mynd­um og leik­rit­um.

Missti traustið en ekki trú

Davíð seg­ist aldrei hafa misst trúna í gegn­um alla erfiðleik­ana. „Ég hef alltaf fundið það og verið sann­færður um að það sé til eitt­hvað æðra mann­leg­um mætti, að það sé til gott og illt. Ég hef alltaf verið leit­andi og and­lega þenkj­andi. Ég hef alltaf verið trúaður. En ég missti traustið á Guði. Hvernig get­ur Guð verið al­mátt­ug­ur og algóður og horft á heim­inn og skipt sér ekki af. Annaðhvort er hann siðblint villi­dýr eða hann er full­kom­lega van­mátt­ug­ur.“

Hvernig út­skýr­irðu það?

„Ég get ekki út­skýrt það. Eft­ir að ég tók þá ákvörðun að láta líf mitt lúta hand­leiðslu æðri mátt­ar er reynsla mín að líf mitt tók U-beygju. Þá trúi ég að það sé hægt að vera í per­sónu­legu vit­und­ar­sam­bandi við æðri mátt. Það er mín reynsla. Og ég segi það stund­um að Guð vill ekki að það sé allt í drasli heima hjá þér, en hann kem­ur ekki heim til þín og tek­ur til. En hann hugs­an­lega get­ur gefið þér kraft til að taka til ef þú biður hann um það! Guð tek­ur ekk­ert brenni­vínið úr lífi þínu en get­ur, ef þú nógu auðmjúk­lega fel­ur líf þitt í hend­ur hon­um, gefið þér styrk til að vera and­lega heil­brigður í heimi sem er full­ur af brenni­víni,“ seg­ir Davíð.

Davíð Þór í hlutverki Jolla bílasala.
Davíð Þór í hlut­verki Jolla bíla­sala. mbl.is/​Eyþór Árna­son

Aðskilnaður rík­is og kirkju

Talið vík­ur að kirkj­unni sem stofn­un. „Það er mun­ur á því að trúa á Guð og trúa á kirkj­una, kirkj­an sem stofn­un er sann­ar­lega ekki yfir gagn­rýni haf­in frek­ar en aðrar upp­finn­ing­ar mann­anna. Hún sem tól get­ur verið verk­færi til góðs í sam­fé­lag­inu. Hún er vissu­lega griðastaður og skjól og opið hús fyr­ir bæn og til­beiðslu en hún hef­ur líka rödd, hún hef­ur spá­mann­legt hlut­verk. Það er skylda henn­ar að þegja ekki um órétt­læti,“ seg­ir Davíð.

Hvað með að kirkj­an sé und­ir rík­inu, mynd­ir þú vilja breyta því?

„Já, ég talaði um það í mörg ár að það þyrfti al­gjör­lega að aðskilja ríki og kirkju og sum­ir segja að það hafi verið gert. En á meðan prest­ar eru ekki launþegar kirkj­unn­ar held­ur rík­is­sjóðs hljóm­ar slíkt tal an­kanna­lega,“ seg­ir Davíð. „Fjár­hags­hliðin er þannig að kirkj­an á gríðarlega mikl­ar eig­ur sem gætu al­veg staðið und­ir rekstri henn­ar ef vel væri á haldið en síðan er annað mál að all­ar þess­ar eig­ur eru í hönd­um rík­is­ins og ríkið borg­ar af þeim arð til kirkj­unn­ar í formi launa til presta,“ seg­ir Davíð og út­skýr­ir að hann sé mik­ill aðdá­andi Bar­men-yf­ir­lýs­ing­ar­inn­ar, sem er yf­ir­lýs­ing sem lút­ersk­ir guðfræðing­ar í Þýskalandi und­ir­rituðu á dög­um Weim­ar-lýðveld­is­ins. „Hún geng­ur út á það að stjórn­völd megi ekki hafa nein áhrif á boðun kirkj­unn­ar. Nú er ég ekki að segja að ís­lensk stjórn­völd hafi áhrif á boðun kirkj­unn­ar en þegar stjórn­mála­menn ganga á fund bisk­ups til að biðja hann um að reka starfs­mann kirkj­unn­ar hlýt­ur að fara um mann. Það er erfitt fyr­ir kirkju að hafa hátt um órétt­læti þegar kirkj­an er fjár­hags­lega háð þeim sem standa fyr­ir órétt­læt­inu.“

Laugarneskirkja
Laug­ar­nes­kirkja mbl.is/​Brynj­ar Gauti

Hvaða máls ertu að vísa til?

„Til dæm­is mál með hæl­is­leit­end­ur, hvernig komið er fram við þá. Það er erfitt fyr­ir kirkj­una að koma fram með gagn­rýni á fram­komu hins op­in­bera við hæl­is­leit­end­ur á Íslandi ef kirkj­an er orðin svona fjár­hags­lega háð hinu op­in­bera. Brynj­ar Ní­els­son lét hafa það eft­ir sér að það væri ekki hlut­verk kirkj­unn­ar að gagn­rýna stjórn­völd og ef hún ætlaði að halda því áfram þyrfti aðskilnað rík­is og kirkju og ég er al­veg hjart­an­lega sam­mála hon­um, þarna kemst ekki hníf­ur­inn á milli okk­ar. Það er hlut­verk kirkj­unn­ar að gagn­rýna stjórn­völd og til þess að hún hafi frelsi til þess er nauðsyn­legt að aðskilja þetta. Þú glefs­ar ekki í hönd­ina sem fóðrar þig.“

Ertu ekki hrædd­ur að segja skoðun þína á þessu máli?

„Nei. Fagnaðar­er­indið í tveim­ur orðum er þetta: Verið óhrædd­ir. Ég ætla ekki að þykj­ast ekki þekkja ótt­ann í mínu lífi. Það er margt sem ég ótt­ast,“ seg­ir hann.

Þjóðern­is­hyggja og ras­ismi

Hvað ótt­astu?

„Ég ótt­ast upp­gang þjóðern­is­hyggju. Ég ótt­ast það sem ég er að sjá í stjórn­málaþróun bæði í Banda­ríkj­un­um og meg­in­landi Evr­ópu. Ég ótt­ast for­heimsku og ótta­væðingu. Í vax­andi út­lend­inga­h­atri og íslams­fób­íu,“ seg­ir hann. „Mér finnst voðal­ega skrítið að fólk sem er að koma hingað og þráir ekk­ert annað en að vera nýt­ir borg­ar­ar sé sent dýr­um dóm­um úr landi, hugs­an­lega út í op­inn dauðann. Á sama tíma og við erum að flytja inn vinnu­afl. Það er þetta sem ég ótt­ast. Ótt­inn nær­ir hatrið. Þetta er stóra ógn­in okk­ar núna. Þess vegna þurf­um við að hafa hug­rekki til þess að sigr­ast á ótt­an­um. Það að trúa er ekki að ef­ast ekki. Það að trúa er að horf­ast í augu við ef­ann en að hafa hug­rekki til að láta hann ekki ráða ferðinni.“

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert