Framsóknarmenn stóðu frammi fyrir svipuðu vali í formannskjöri sínu og kjósendur í forsetakosningum í sumar á milli manns átaka annars vegar og manns sátta hins vegar, að sögn Róberts Marshall, þingmanns Bjartrar framtíðar. Sagði hann Sigmund Davíð Gunnlaugsson hafa gert átök að meginstefi stjórnmálaferils síns.
Róbert gerði formannskjör Framsóknarflokksins um helgina að umtalsefni sínu í umræðum um störf þingsins við upphaf þingfundar í dag. Það og forsetakosningarnar í sumar hafi verið atburðir sem bendi til þess að hlutirnir gætu verið að færast í betra horf í landinu. Kjör Guðna Th. Jóhannessonar sem forseta hafi þannig verið gleðilegt í ljósi þeirra kosta sem hafi verið í boði.
„Annars vegar stjórnmálamaður mikilla átaka og hins vegar mannasættir á borð við Guðna Th.,“ sagði Róbert og vísaði að öllum líkindum til Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins og Mbl.is.
Sama hafi verið uppi á teningnum í formannskjöri Framsóknarflokksins um helgina. Óskaði Róbert framsóknarmönnum til hamingju með að hafa tekið það sem hann taldi gæfuspor því valkostirnir þar hafi verið af þessum tveimur skólum sem hann nefndi í samhengi við forsetakosningarnar.
„Annars vegar maður sem hefur gert átök að meginstefi síns stjórnmálaferils og hins vegar hæstvirtur forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sem hefur sýnt það á undanförnum mánuðum að hann er maður sátta, maður samtalsins, sem hægt er að ræða við og komast að niðurstöðu og hún stendur,“ sagði þingmaður Bjartrar framtíðar.
Hvatti hann stjórnmálaflokkana til að fara að þessu fordæmi og fara leið sátta og samtalsins. Tími sé kominn til að kveðja tíma átakanna í stjórnmálunum.