Nýnemum í kennaranámi fækkað um 60%

„Allir foreldrar vilja góða skóla og kennara og góðir skólar eru undirstaða lýðræðis. Þrátt fyrir það virðast stjórnmálamenn ekki setja menntamál á oddinn og æ færri sækjast eftir því að mennta sig sem kennari,“ segir Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Tilefni orða Jóhönnu var málþing sem haldið var í Hátíðarsal Háskóla Íslands í dag. Yfirskrift málþingsins var Viljum við samfélag án kennara? Auk Jóhönnu héldu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Stefán Hrafn Jónsson, prófessor í félagsfræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, stutta tölu. Að lokum voru stjórnmálamenn sem eru í framboði til Alþingis krafnir um afstöðu sína.

Kom fram í máli frummælenda að kennurum fer fækkandi. Nýnemum í kennaranámi hefur fækkað um 60% frá árinu 2008 og það er áhyggjuefni. „Áhrifa kennaraskorts mun gæta alls staðar en kennarar eru einhver mikilvægasta starfsstétt landsins,“ sagði Jón Atli og bætti við að kjör kennara væru lök og þau þyrfti að bæta.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Ljósmynd/Håkon Broder Lund

Þurfum að hvetja fólk til náms

Jóhanna benti á að Háskóli Íslands væri undirfjármagnaður og það bitnaði til að mynda á kennaranáminu, þar sem verknám og verkleg kennsla þarf að vera ríkur hluti af náminu.

„Við þurfum að hvetja fólk til að fara í námið,“ sagði Jóhanna og benti á að styrkir, skattaívilnanir á fyrstu árum eða námslánahjálp gætu verið leiðir sem vert væri að skoða betur. „Menntamál ættu að vera forgangsverkefni allra ábyrgra stjórnmála og þeirra keppikefli að búa sem best að skólum landsins.

Stefán Hrafn Jónsson, prófessor í félagsfræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, kynnti niðurstöður meistaraverkefnis Helga Eiríks Eyjólfssonar. Samkvæmt þeim fer kennurum fækkandi á meðan nemendum fer fjölgandi.

Kom fram að helmingur þeirra sem mennta sig sem kennarar starfa við annað. Niðurstöður Helga benda til þess að kennurum hafi fækkað um 22% árið 2031 en nemendum fjölgað um tæp 15% miðað við árið í fyrra. „Mikilvægt er að gera starf grunnskólakennara eftirsóknarverðara og halda betur í nýútskrifaða kennara,“ sagði Stefán.

Jóhanna Einarsdóttir.
Jóhanna Einarsdóttir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Betur launað að svara í síma á læknastöð

„Við ætlum að taka peninga frá auðvaldinu og gera kennarastarfið meira aðlaðandi,“ sagði Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar en fulltrúar stjórnmálaflokka voru spurðir að því hvað þeir myndu gera til að bregðast við skorti á grunnskólakennurum og leikskólakennurum.

Allir stjórnmálamennirnir voru sammála um að laun kennara væru of lág. Sumir, líkt og Þorvaldur, komu með hugmyndir um hvað væri hægt að gera til að bæta þau. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði að hækka ætti auðlindagjöld. „Það er ekki nema eðlilegt að þeir sem nýti sameiginlegar auðlindir skili til baka til samfélagsins,“ sagði Katrín og tók undir að laun kennara væru allt of lág:

„Tvær vinkvenna minna vinna við að svara í síma á læknastöð í stað þess að kenna. Það er betur borgað og álagið á kennara er allt of mikið.“

„Á að kenna í tjöldum?“

Valgerður Gunnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, og Ólafur Þór Ólafsson, Samfylkingu, voru sammála um að húsnæðiskostnaður væri alltof mikill. „Við þurfum að minnka áhersluna á steypu og auka áherslu á mannauð,“ sagði Ólafur. „Á að kenna í tjöldum,“ spurði Helgi Seljan, fundarstjóri, þá og uppskar mikinn hlátur fundargesta.

Haraldur Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, spurði hvað hægt væri að gera til að laun kennara hækkuðu umfram aðrar stéttir. Það hefði verið reynt áður en þá hefðu aðrar stéttir krafist kjarabóta og svokallað höfrungahlaup hafist.

Nánast allir stjórnmálamennirnir töldu að þjóðarsátt þyrfti að ríkja um launahækkanir kennara. Öðruvísi myndu kjör þeirra ekki batna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka