Þolendur kynferðisofbeldis fá skjól

Í dag var nýtt úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis kynnt en það er húsið Bjarkarhlíð við Bústaðaveg. Starfsemin í Bjarkahlíð mun felast í samhæfðri þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi s.s. kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi.

Þegar þangað er komið er hugmyndin svo að kerfið teygi sig til þeirra en ekki öfugt, segir María Rut Kristinsdóttir verk­efna­stjóri sam­ráðshóps Inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins um grein­ingu á bætt­um verk­ferl­um í kring­um nauðgun­ar­mál.

Frétt mbl.is: Þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis

Verkefnið er samstarf ýmissa aðila en Reykjavíkurborg leggur til húsnæði á meðan Velferðarráðuneytið veitir því 50 milljónir króna á næstu tveimur árum. Að þeim tíma loknum verður árangurinn metinn og framhaldið ákveðið.

Brotaþolar í vændi eða mansali geta sótt sér aðstoð í Bjarkarhlíð ásamt þolendum ofbeldis í nánum samböndum. 

Eftirfarandi viljayfirlýsing um starfið var undirrituð í dag meðal annarra af ráðherrum og borgarstjóra:

Aðilar að þessari viljayfirlýsingu hafa átt í viðræðum um stofnun og rekstur þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Miðstöðin, sem gengið hefur undir nafninu Bjarkahlíð, yrði tilraunaverkefni til ársloka 2018. Gert er ráð fyrir að starfsemin hefjist 2016.

Markmiðið er að Bjarkahlíð verði griðastaður fyrir brotaþola ofbeldis, konur og karla, sem hafa m.a. verið beittir kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Þar verði fullorðnum einstaklingum sem orðið hafa fyrir ofbeldi veitt samhæfð þjónusta og ráðgjöf. Starfsemin mun fara fram í húsnæði í eigu Reykjavíkurborgar, Bjarkahlíð við Bústaðaveg.

Starfsemin mun felast í þjónustu sem neðangreindir samstarfsaðilar veita en gert er ráð fyrir að brotaþolum gefist kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá félagsráðgjafa, lögreglu, grasrótarsamtökum og öðrum samstarfsaðilum, þeim að kostnaðarlausu. Í boði verður bráðaþjónusta þar sem meðal annars lögreglan getur komið beint með einstaklinga og tekið skýrslu, vísað til viðtals hjá ráðgjafa og tengt við aðra þjónustuaðila.

Réttindagæslumenn fatlaðs fólks geta vísað skjólstæðingum sínum til Bjarkahlíðar og komið með þeim. Framhaldsviðtöl og ráðgjöf verður í boði svo og tenging við aðra þjónustu sem er til staðar, ekki síst velferðarþjónusta sveitarfélaganna og barnaverndarkerfið.

Jafnframt verður aðstaða fyrir börn á meðan foreldrar eru í viðtölum.Þjónustan miðast við Reykjavík til að byrja með en gert er ráð fyrir aðkomu annarra sveitarfélaga að verkefninu þegar fram í sækir. Framlag samstarfsaðila verður með ýmsum hætti, þ.m.t. vinnuframlag.

Reykjavíkurborg leggur til húsnæði, búnað og stendur straum af rekstrarkostnaði hússins vegna þessa. Velferðarráðuneytið ábyrgist ákveðið fjármagn til rekstrarins, 10 m.kr. á árinu 2016 og 20 m.kr. á hvoru ári árin 2017 og 2018. Jafnframt verði leitað til annarra ráðuneyta vegna þessa verkefnisins.

Nánar verður kveðið á um þetta samstarf í samningum milli aðila. Einnig er gert ráð fyrir að leitað verði eftir stuðningi meðal fyrirtækja og annarra aðila með samfélagslega ábyrgð.

Aðilar að viljayfirlýsingu þessari lýsa sig reiðubúna til að vinna áfram að því að þjónustumiðstöðin verði að veruleika í samræmi við framangreindar áherslur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert